Á fimmtudagskvöldið var okkur Steinunni boðið á forsýningu á Epli og eikum, nýjustu sýningu Hugleiks. Plottið var augljóslega að bjóða völdum bloggurum í þeirri von að þeir skrifuðu um sýninguna. Ég geng í það mál hér með:
Hugleikur er skemmtilegt fyrirbæri. Þetta er reykvískt áhugamannaleikhús sem hefur verið að í einhver tuttugu ár og undantekningarlítið (eða -laust?) sett upp frumsamin verk, helst með söngvum.
Þar sem mamma og pabbi könnuðust við fólk sem tengdist Hugleik fór ég á allnokkrar sýningar sem unglingur. Sumar hverjar fjári góðar. Það sem einkennir verkin hjá Hugleik er húmorinn. Fyrst og fremst er hugsað um að setja upp fyndna og skemmtilega sýningu. Það er gríðarlegur kostur í áhugamannaleikhúsi – best er að láta menntuðu leikarana um dramatísku loftfimleikana.
Epli og eikur eftir Þórunni Guðmundsdóttur er dæmigerð Hugleiks-sýning. Að þessu sinni er ekki snúið út úr menningararfinum eða bókmenntasögunni, heldur er sögusviðið Hljómskálagarðurinn (sniðug sviðsmynd) og plottið eiginlega stæling á hefðbundnum ástarvelluförsum – nema aðalsöguhetjurnar eru krimmar eða fólk sem dreymir um að leiðast út í glæpi. Lestir teljast því dyggð og öfugt.
Leikararnir stóðu sig vel. Baldur Ragnarsson, sem leikur aðalsöguhetjuna Lárus, er sérstaklega skemmtilegur í hlutverki sínu – þar sem hann leikur með andlitinu allan tímann (er það ekki eitthvað svoleiðis sem maður segir í leikdómi?)
Mæli í það minnsta með Epli og eikum fyrir þá sem vilja sjá skemmtilega sýningu. Ég samt ekki enn búinn að átta mig á því hvað þessi eikartré í titlinum eiga að merkja.
# # # # # # # # # # # # #
Fyrir tveimur árum spáði ég því að MK gæti blómstrað í Gettu betur 2007 ef rétt væri að málum staðið. Sannast sagna hélt ég að Kópavogsbúar hefðu misst af lestinni. Þeir heilluðu mig ekki í útvarpinu og þrátt fyrir ágæta spretti í fjórðungsúrslitunum, taldi ég þá klárlega langslakasta liðið í undanúrslitum.
Þess vegna kom frammistaða MK í kvöld mér gleðilega á óvart. Liðið á það svo sannarlega skilið að fara í úrslitaleikinn og þótt MH-ingar hafi líka verið sterkir, fannst mér MK betra liðið. Getur verið að Hamrahlíðarfólk hafi þegar verið komið í úrslitaleikinn í huganum?
Spurningarnar í kvöld voru aðeins of léttar. Þegar komið er þetta langt í keppninni má fjölga strembnu spurningunum aðeins. Reyndar kom Davíð að tómum kofanum hjá börnunum í spurningunni um Sköllóttu söngkonuna, sem kom mér mjög á óvart. Sjálfur spurði ég um Nashyrningana eftir sama leikskáld fyrir tveimur árum – og hefði því haldið að þetti ætti að koma.
Það vildi loða við MH á tímabili að kvarta sáran eftir töp í GB og reyna að skella skuldinni á mistök dómara, einkum ef mjótt var á munum. Vona að sú verði ekki raunin að þessu sinni.
# # # # # # # # # # # # #
Megi Moggabloggið lokast inni í lyftu – yfir helgi…