Hver skildi eiga metið í að fá fæst atkvæði í kosningum á Íslandi? Svarið fer augljóslega eftir því hvaða skilgreiningar er notast við. 100 atkvæði í Vestfjarðakjördæminu gamla er augljóslega betri árangur en 100 atkvæði í Reykjavík.
Ef rennt er yfir lista nokkurra síðustu kosninga sjást nokkrar verulega ljótar tölur. Tökum dæmi:
1987 fékk Bandalag jafnaðarmanna 162 atkvæði í Reykjavík og 84 í Reykjaneskjördæmi – en það var fyrst og fremst mótmælaframboð til að andæfa því að kjörnir þingmenn flokksins frá 1983 hefðu stungið af með ríkisframlagið í aðra flokka.
1991 fengu Heimastjórnarsamtökin (hluti gamla Borgaraflokksins) 88 atkvæði í Reykjaneskjördæmi en Verkamannaflokkur Íslands 99. Verkamannaflokkurinn (sem hafði bókstafinn E eins og Baráttusamtökin núna) bauð bara fram þarna – svo hér er líklega um lakasta árangur flokks að ræða á landsvísu.
88 og 99 atkvæði er afleitt í stóru kjördæmi. Verkamannaflokkurinn skilaði reyndar bara inn 11 manna framboðslista, svo þetta var níföldun frá listanum. Heimastjórnarsamtökin voru með 18 á sínum – sem er rúmlega fjórföldun.
Á sömu kosningum fengu Frjálslyndir 31 atkvæði á Vestfjörðum – út á fimm manna framboðslista. Sexföldun þar. Jafnfjölmennir listar á Norðurlandi vestra og Austurlandi lönduðu 25 atkvæðum – fimmföldun þar.
1995 fékk Náttúrulagaflokkurinn – nöttaraframboð sem trúði á hugleiðslu og að menn gætu flogið með hugarorku – 28 atkvæði á Vesturlandi. Listinn hefur varla verið nema 5-6 manna.
Ef notuð er skilgreiningin – atkvæðamagn miðað við fjölda á lista er notuð – þá eru Heimastjórnarsamtökin 1991 í Reykjaneskjördæmi klárlega með vinninginn. Rétt rúm fjórföldun.
En sveitarstjórnarkosningar bjóða líka upp á skemmtileg úrslit. (Sem minnir mig á það gamla baráttumál mitt að einhver – t.d. Wikipedia – taki að sér að búa til úrslitagrunn fyrir kosningar til sveitarstjórna.)
Skemmtilegasta framboðið sem kemur upp í hugann er Reykjanesbæjarlistinn – sem boðinn var fram í síðustu sveitarstjórnarkosningum og talinn klofningsframboð úr Frjálslynda flokknum. Hann fékk 37 atkvæði en var með 22 frambjóðendur. Það þýðir að innan við tvöfalt fleiri kusu listann en sátu á honum!!! Þetta gerir Reykjanesbæjarlistann væntanlega að slappasta framboði íslenskrar stjórnmálasögu.
Oddviti Reykjanesbæjarlistans var Baldvin Nielsen. Nú myndu sumir ætla að þessi útreið hefði orðið til að téður Baldvin hugsaði sig tvisvar um varðandi áframhaldandi pólitíska þátttöku – en því er öðru nær. Hann skipar nú þriðja sætið á lista Íslandshreyfingarinnar í Suðurkjördæmi.
Megi Moggabloggið verða að Reykjanesbæjarlista bloggheimsins!