Ætli ég eigi ekki eftir að vaka þessa kosninganótt fram að síðustu tölum eins og venjulega? Spenningurinn er tvíþættur. Annars vegar að sjá hvort ríkisstjórnin fellur og hvort eitthvað betra tekur ekki við – hins vegar hvernig þingsætin raðast niður í Reykjavík-norður.
Fyrir u.þ.b. hálfu ári ákvað Steinunn að bjóða sig fram í prófkjöri VG. Hún var eini frambjóðandinn sem stefndi sérstaklega á fjórða sætið.
Hugsunin á bak við þetta markmið var einföld – ekki að verða þingkona að atvinnu næstu fjögur árin, heldur að hljóta sæti fyrsta varaþingmanns. Þannig ætti hún að komast inn á þing í nokkur skipti næsta kjörtímabilið til að kynnast þinginu og leggja sitt til málanna.
Íslenskir stjórnmálamenn eru nokkuð einsleitur hópur, með svipaðan bakgrunn og reynslu. Inn í þessa sveit er gott að fá fólk með önnur sjónarhorn. Mætti ég stinga upp á tæplega þrítugri konu sem varð öryrki rúmlega tvítug og hefur reynt að lifa á strípuðum bótum frá Tryggingastofnun án nokkurra annarra lífeyrisréttinda. Hvað ætli margir sitjandi þingmenn hafi prufað það?
Steinunn hefur ótrúlega margþætta félagsmálareynslu. Hún hefur starfað í flokkapólitík, innan sjúklingafélags, í hagsmunabaráttu öryrkja innan ÖBÁ og að friðar- og afvopnunarmálum svo eitthvað sé nefnt. Hún er friðarsinni og sósíalisti, en þó umfram allt frábærlega fær í mannlegum samskiptum. Á fundum og samkomum er hún manneskjan sem gefur sig á tal við stelpuna sem er að mæta á fund í fyrsta skipti, skringilega manninn sem situr einn úti í horni eða gamla fólkið sem veit ekki alveg hvernig það á að bera sig að.
Á forvalinu fyrir áramót fékk Steinunn glimrandi kosningu í umbeðið sæti. Þá er næsta skref að tryggja VG þrjá menn í Reykjavík-norður. Það er raunhæft markmið.
Lofa engu um frekari bloggfærslur fyrr en eftir kosningar – það er nefnilega í nægu að snúast…