Ég er búinn að hafa lúmskt gaman af öllu fárinu eftir leik Skagamanna og Keflvíkinga. Nenni ekki að setja mig í gírinn – „ó, hvað þetta er nú slæmt fyrir íþróttina“ – sannleikurinn er sá að það er fátt skemmtilegra en almennilegur hasar í fótboltanum og mest gaman þegar allt verður vitlaust.
Það er tilgangslaust að velta mikið vöngum yfir því hvort Bjarni Guðjónsson hafi skorað viljandi eða ekki. Á því efni verður ekkert hægt að sanna. Skemmtilegra er að fylgjast með umræðunni um hvort Skagamenn hefðu átt að gefa Keflvíkingum mark á móti. Þar er þáttur Guðjóns Þórðarsonar merkilegur, en mér sýnist hann hafa orðið fimmsaga í málinu. Rifjum þetta nú upp:
i) Fyrstu viðbrögð Guðjóns við spurningu um hvort til greina hefði komið að gefa mark voru á þá leið að það hafi aldrei verið inni í myndinni og hugmyndin fáránleg. Mark Bjarna hafi verið mistök og mistök séu hluti af leiknum, sem ekkert sé við að gera.
ii) Síðar kemur fram að Bjarni hafi spurt Guðjón og samherja sína hvort rétt væri að leyfa Keflvíkingunum að skora, en sú hugmynd hafi verið skotin niður.
iii) Guðjón lætur síðan að því liggja að Skagamenn hafi á einhvern hátt gert Keflvíkingum auðvelt að skora mark skömmu eftir atvikið og að Bjarni hafi í raun gefið Keflvíkingum markið eftir allt saman.
iv) Eftir því sem lengri tími líður frá leiknum eru Skagamenn farnir að tala sig upp í að þeir séu í raun fórnarlömbin. Þá byrjar Guðjón að spila þá plötu að framkoma Keflvíkinga eftir leikinn hafi verið með þeim hætti að þeir hafi ekki átt skilið að fá mark í sárabætur. – Þessi málsvörn krefst þess reyndar að leikmenn íA séu skyggnir og hafi vitað meðan á leik stóð að allt færi í háaloft síðar um kvöldið.
og síðast en ekki síst…
v) Á raun sé ekki hægt að útiloka það að Skagamenn hefðu leyft Keflvíkingum að skora, en Keflvíkingar hafi bara verið með svo mikil læti og djöfulgang að Skagamönnum hafi bara ekki gefist ráðrúm til þess.
Mér finnst það vera vel af sér vikið hjá einum manni að ná að smíða fimm mismunandi útgáfur af nokkurra sekúndna atburðarás á einum og hálfum sólarhring. Spái því að næst muni Guðjón lýsa því yfir að hann hafi einn manna á vellinum krafist þess að fá að gefa Keflvíkingum mark en Suðurnesjamenn ekki tekið það í mál.
Hafiði annars tekið eftir því hvað Guðjón Þórðarson og Guðni ígústsson eru furðulíkir?
Megi Guðjón Þórðarson afgreiða Moggabloggið eins og rithöfund.