Við í famelíunni á Mánagötunni teljumst heiðingjar samkvæmt Þjóðskrá. Það þýðir að við beygjum okkur ekki undir þrælasiðferðið sem Kristlingarnir boða, þvert á móti erum við vinir vina okkar og óvinir óvina okkar. Markmiðið er að ala heimasætuna upp í þessum anda.
Nú skal viðurkennt að Ólína er ekki kjarkaðasta barnið sem sögur fara af. Hún er raunar hálfgerð raggeit, sem myndi aldrei hætta sér út í ófærur. Þetta er ótvíræður kostur í uppeldi, því við höfum aldrei þurft að hafa miklar áhyggjur af því að barnið hætti sér í miklar ógöngur, þótt hún sé látin eftirlitslaus í stundarkorn.
Um daginn gladdi stelpan þó hjarta okkar og staðfesti að hún hefur herra- en ekki þrælasiðferði.
Við vorum stödd í Kjarrhólmanum hjá annarri ömmunni og leiðin lá út á róluvöll. Ólína sá rennibrautina úr fjarska og byrjaði strax að þylja möntruna: „Ólína fara í rennibraut“ (bara aðeins smámæltara).
Eftir því sem við nálguðumst rennibrautina jukust brýningarnar. „Ólína fara í rennibraut“. Þegar komið var upp að brautinni tók barnið til við að klifra upp og þuldi í sífellu: „Ólína geta, Ólína geta, Ólína geta…“ – þar til komið var upp í topp. Þá leit hún niður og sá að það var fjári langt til jarðar.. „Ólína vilja ekki“ – og svo var klifrað aftur niður.
Svona gekk þetta nokkrum sinnum. „Ólína geta, Ólína geta – Ólína vilja ekki“. Aldrei renndi hún sér niður, alltaf sneri hún við á miðri leið – en eftir stendur að Ólína GETUR rennt sér niður – hún VILL bara ekki gera það…
Þetta er í hnotskurn munurinn á herra- og þrælasiðferði.
# # # # # # # # # # # # #
Leikir kvöldsins í Suður-Ameríkukeppninni voru furðuójafnir. Er alvarlega að spá í að vaka eftir leik Uruguay og Brasilíu á þriðjudagskvöld, en verð þá varla til stórræða í vinnunni á miðvikudaginn.