Jæja, þá hafa Sameinuðu þjóðirnar staðfest að við í NATO erum að drepa fleiri almenna borgara en Talibanarnir í stríðinu í Afganistan. Þessar upplýsingar munu tæplega valda íslenskum NATO-sinnum miklu hugarangri, enda telst það víst hræðileg menningarleg afstæðishyggja að fetta fingur út í dráp okkar á fólki í þriðja heiminum.
NATO-ríkin Ísland og Tyrkland vilja bæði komast í öryggisráð SÞ. Ég held með Austurríki.
# # # # # # # # # # # # #
Fyrir þá sem komið hafa inn á skrifstofuna mína hljóta að það teljast mikil tíðindi að frétta að ég er búinn að taka til í henni. Það var raunar tveggja manna verk í heilan vinnudag, en núna er hún orðin sallafín og nóg borðpláss.
Elstu minnismiðar á borðinu voru 4 ára og úti í horni fann ég hluti sem komu hingað á safnið 2002. Er mér við bjargandi?
# # # # # # # # # # # # #
Á gær las ég stutta frásögn um hryðjuverkafárið í BNA 1919. Hef alltaf ætlað að kanna hvort ekki væru til almennileg sagnfræðirit um þetta efni. íbendingar vel þegnar.
Tildrög málsins voru þau að smáhópur anarkista sendi bréfasprengjur til ýmissa mektarmanna í bandarísku samfélagi. Fæstar þeirra bárust til réttra viðtakenda, þar sem ekki hafði verið greitt fullt burðargjald, en eyðileggingarmátturinn var gríðarlegur.
Á kjölfarið hófst mikið hryðjuverkafár þar sem þúsundir manna voru handteknir og mörghundruð innflytjendur sendir úr landi. Þeir stjórnmálamenn sem harðast gengu fram nutu mikilla tímabundinna vinsælda og bandaríska þingið kepptist við að setja lög gegn hryðjuverkum.
Síðar, þegar dómstólar fóru að fjalla um kærurnar á hendur öllu þessu fólki, reyndist málatilbúnaðurinn byggður á sandi og almenningi varð ljóst að stóra samsærið væri ekki fyrir hendi.
Boðskapur sögunnar: Ekki hleypa dómstólunum í að fjalla um mál fólksins sem þú handtekur fyrir að plotta hryðjuverk. Lokaðu þau frekar inni í fangabúðum án dóms og laga.
Megi Moggabloggið fá óvænta sendingu í póstinum…