Eins og allir vita er það á ábyrgð láglaunafólks að trggja að hagkerfið fokkist ekki upp. Þegar staða efnahagsmála er slæm og fyrirtækin í kröggum er augljóslega ekkert svigrúm til að hækka launin hjá verkafólkinu og þegar vel árar er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að standa á bremsunni til að hleypa ekki af stað verðbólgunni. Það er nefnilega lögmál að ef lægstu laun þokast upp á við er gjörsamlega útilokað að koma í veg fyrir að millistjórnendurnir og topparnir fylgi á eftir.
Næst þegar þið ætlið að hneykslast á einhverjum forstjóranum sem kaupir sér þyrlu eða fær Madonnu til að syngja í afmælinu sínu skulið þið minnast þess að bruðlið er ekki honum sjálfum að kenna heldur staffinu á gólfinu. Ef leikskólaleiðbeinendur hefðu ekki herjað út tvo launaflokka í síðustu samningum hefðu bankastjórarnir örugglega afþakkað kaupréttarsamningana sína og fengið Sumargleðina í partýið.
Láglaunaliðið sýnir efnahagslífinu einnig tilræði með því að vilja eignast húsnæði. Allir vita að þenslan í hagkerfinu er einkum tilkomin vegna fólksins sem er að kaupa sér 2-3 herbergja íbúðir á 20 milljónir. Með því að hækka vextina á lánunum til þessa hóps og þrengja aðeins greiðslumatið eru góðar líkur á að þetta fólk ákveði að kaupa sér ekki íbúð og búa hvergi.
Þannig að næst þegar þið heyrið sögur af einhverjum greifanum sem kaupir sér einbýlishús úti á Nesi fyrir 80 milljónir og byrjar á að rífa það nánast til grunna – hafið þá í huga að ef aðeins fleiri vesalingar sættu sig við að hafa barnaherbergið í stofunni hefði náunginn gert sér að góðu raðhúsíbúð í Fossvoginum.
Það er nú svo…
# # # # # # # # # # # # #
Pólitísk getraun svona í vikulokin. Svör óskast í athugasemdakerfið:
Á þingmannatalinu á vef Alþingis er hvergi að finna nafn Gísla Hjálmarssonar. Engu að síður var hann þjóðkunnur maður – í það minnsta í Reykjavík – á fyrri hluta síðustu aldar. Hann var þá almennt titlaður þingmaður bæjarfélags úti á landi. Og nú er spurt: þingmaður hvaða bæjar var Gísli sagður vera?