Bolungarvík var svarið við föstudagsgetrauninni. Gísli Hjálmarsson var maður sem batt bagga sína ekki sömu hnútum og samtíðarmennirnir og beit það snemma í sig að hann væri þingmaður Bolvíkinga. Á öðrum áratug síðustu aldar hafðist hann löngum við í Reykjavík um þingtímann og sóttist eftir inngöngu í Alþingishúsið – en var einatt vísað á dyr.
Skáldið Jón Trausti ritaði minningargrein um Gísla, sem er með flottari minningargreinum sem ég hef lesið. Laus við tilgerð og væmni lýsti hann persónubrestum hins meinta þingmanns, en sagði jafnframt hlýlega sögu af því þegar Gísla heitnum var hleypt upp í ræðustól Alþingis og hann fékk að þruma yfir mannlausum þingsalnum.
Eftirmæli Jóns Trausta má lesa í síðasta eða næstsíðasta bindi ritsafns hans. Mæli með þeirri lesningu.