Guðmundur Andri Thorsson (sem ég myndi líklega kalla Egil Helgason fátæka mannsins ef ég væri gárungur) er farinn að skrifa pistla í Fréttablaðið á ný. Kannski er langt síðan hann byrjaði aftur, ég er ekkert sérstaklega athugull blaðalesandi og mundi bara eftir því hvað Guðmundur Andri varð fúll þegar honum var sagt upp pistlahöfundarstöðunni síðast.
Pistill dagsins ber yfirskriftina Biluð sjónvörp og fjallar um ungmennin sem hafa mótmælt stóriðjustefnunni hér á landi síðustu sumur og kalla sig Saving Iceland. Á greininni leitar GAT í smiðju bókmenntafræðinnar, sækir samlíkingar til heimsbókmenntanna og grípur jafnvel til orðræðugreiningar á viðfangsefninu. Er því ekki bara vel til fundið að orðræðugreina pistilinn á móti?
Röksemdafærslu GAT sýnist mér að megi draga saman á þennan hátt:
i) Saving Iceland virðist hafa lag á að fara í taugarnar á Íslendingum.
ii) Það er óvenjulegt vegna þess að Íslendingar eru almennt séð velviljaðir í garð fólks sem mótmælir, eins og Birna Þórðardóttir er gott dæmi um.
iii) Óvinsældir þessara tilteknu mótmælenda eru hins vegar skiljanlegar því þetta eru manngerðir sem Íslendingar eiga ekkert sameiginlegt með. Þetta eru níhilistar. Lífsleið auðmannabörn sem hafa ekkert fyrir stafni. Íslendingar eru hins vegar heiðvirt millistéttarfólk sem aldrei fellur verk úr hendi.
iv) (Hér kemur svo innskot þar sem GAT rekur plottið í djöflunum eftir Dostojevskí – sem er væntanlega bókmenntafræðibrandari eða hugsað til að sýna fram á að höfundur sé víðlesinn frekar en hluti af röksemdafærslunni.)
v) Höfundur viðurkennir í framhjáhlaupi að e.t.v. sé einsleitni íslensks samfélags eitthvað að breytast og að kannski megi finna einhverja þriðjukynslóðar kvótaerfingja sem séu farnir að leiðast út í vinstriróttækni af þrúgandi leiðindum lystisemdanna.
vi) GAT finnur að því að útlendingar séu fyrirferðarmiklir í mótmælendahópnum. Þó vissulega sé barátta þessi alþjóðleg í eðli sínu, sé Íslendingum á einhvern hátt gerð skömm til með því að „flytja þurfi inn“ útlenda mótmælendur. Þetta er sérkennileg birtingarmynd alþjóðavæðingarinnar.
vii) Líklega eru mótmælendurnir í Saving Iceland í raun virkjana- og stóriðjusinnar í hjarta sínu, því að þótt mótmæli þeirra beinist gegn Kárahnjúkavirkjun og Alcoa-verksmiðjunni, þá byrjuðu þau svo seint að öllum mátti ljóst vera að ekki yrði aftur snúið. Það var því „óhætt“ að mótmæla, enda engin hætta á að aðgerðirnar skiluðu árangri.
viii) Saving Iceland er útlenska. Útlendu mótmælendurnir notast sem sagt við ensku en ekki íslensku. Það er kjaftshögg fyrir hreintungustefnuna og hálfgert svindl vegna þess að viðurkennd íslensk mótmæli (t.d. þessi sem Birna Þórðardóttir stóð fyrir og bræddi með því hjörtu þjóðarinnar) eiga að byggjast á þjóðerniskennd og samtvinna ást á landinu, þjóðinni og tungunni.
ix) Hópurinn stóð fyrir skringilegri uppákomu í Kringlunni þar sem var mikið hopp og hí – auk þess sem einn mótmælandinn flutti ræðu í stíl prédikara úr Biblíubeltinu í BNA. Þessi aðgerð verður ekki túlkuð öðruvísi en sem skilaboð til íslensku þjóðarinnar: þið eruð skítapakk og ættuð að drulla ykkur af þessu fallega landi.
x) Þess utan er nafnið Saving Iceland hrokafullt, því það felur í sér hrokafulla yfirlýsingu um að hópurinn sé að bjarga landinu. Öðru máli gegndi ef nafnið væri Save Iceland!, Please, Save Iceland! eða jafnvel Desperatly trying to Save Iceland.
xi) Annar túlkunarmöguleiki er sá að með slagorðinu Saving Iceland sé átt við að frysta eigi Ísland í núverandi mynd svo engu verði framar hnikað til þar.
xii) Aðgerðirnar í Kringlunni voru léttúðugar og ekki til þess fallnar að skjóta neinum skelk í bringu nema löggunni. Það er í sjálfu sér engin ástæða til að vera hræddur við þessa krakka sem standa bara fyrir hefðbundnum skemmdarverkum og eru „al kaída krúttkynslóðarinnar“.
xiii) Líklega eru þessir stælar dæmigerð unglingauppreisn þar sem millistéttarkrakkarnir gera veikburða tilraunir til að ögra borgaralegum foreldrum sínum. Þetta á allt eftir að eldast af greyjunum, þau verða komin í Rotary eftir fimmtán ár…
Ég held að þetta dekki nokkurn veginn grein Guðmundar Andra. Við hana er sitthvað að athuga.
i) Já, um þetta ættu allir að geta verið sammála.
ii) Þessi aðdáun þorra Íslendinga á kjörkuðum mótmælendum hefur að mestu farið framhjá mér. Að taka Birnu Þórðardóttur sem dæmi um mótmælanda sem slegið hefur í gegn hjá þjóðinni er sérstaklega furðulegt. Um árabil mátti Birna líða fyrir afskipti sín af stjórnmálum. Hún átti m.a. í erfiðleikum með að fá vinnu og mátti þola ótrúlega illmælgi og rógburð. Sömu sögu er að segja um marga aðra sem látið hafa til sín taka í róttækri pólitík.
iii) Óskaplega eru þetta einfaldar alhæfingar. Á fyrsta lagi eru þessir mótmælendur engir níhilistar (og raunar gengur restin af grein GAT út á hversu miklir smáborgarar þeir séu í raun og veru) og staðalmyndin af íslensku þjóðinni sem einsleitu samansafni lúsiðinna millistéttarmanna er billeg. Annars endurómar hún hina gömlu hugmynd Framsóknarflokksins um að allskonar -ismar ættu ekkert erindi við íslenska þjóðarsál. Hriflu-Jónas hefði í það minnsta orðið ánægður með þessa röksemdafærslu.
iv) Þetta hlýtur að vera bókmenntafræðingadjókur, sem fyrr segir.
v) Það er djörf kenning að róttæklingasellur samtímans sæki sérstaklega liðsmenn úr röðum kvótaerfingja. Leyfi mér þó að draga það í efa.
vi) Á sínum tíma tók ég þátt í mótmælum skoskra kjarnorkuvopnaandstæðinga gegn breska kafbátaflotanum. Var þátttaka mín á einhvern hátt niðurlægjandi fyrir Skota? Var það skammarlegt fyrir kínverska stjórnarandstæðinga þegar mörghundruð Íslendingar mótmæltu Kínaforseta vegna mannréttindabrota í heimalandi hans? Af hverju er þátttaka útlendinga í pólitískum mótmælaaðgerðum ámælisverð og á hvaða hátt er hún „sérkennileg birtingarmynd alþjóðavæðingarinnar“? Á mínum huga er það einmitt æskilegt að með alþjóðavæðingunni flytjist hugmyndir og stjórnmálabarátta milli landa en ekki bara fjármagn og vinnuafl. Útskýringu takk!
Og skyldi GAT nota viljandi orðalagið „að flytja inn“ mótmælendur? Trúir hann e.t.v. á goðsögnina um „atvinnumótmælendur“ – málaliða sem ráðnir séu til mótmælastarfs í fjarlægum löndum? Auðvitað eru erlendir mótmælendur ekki „fluttir inn“ frekar en hægt sé að tala um að suðrænar þjóðir „flytji inn“ erlenda ferðamenn.
vii) Rassvasasálfræðin kemst í nýjar hæðir með þeirri kenningu að erlendu mótmælendurnir gæti þess sérstaklega að velja sér fyrirframtapaðan málstað til að berjast fyrir og eiga það á hættu að fá á baukinn frá lögreglunni og háar sektir fyrir dómstólum. Það væri í það minnsta merki um afar sérstæða píslarvættisþörf.
Annars er baráttan gegn stóriðjustefnu og virkjanaáformum á Austurlandi afar vont dæmi fyrir kenninguna um hin síðbúnu mótmæli. Segja má að þessi barátta hafi staðið samfellt frá því að tekist var á um áform Landsvirkjunar um Eyjabakkavirkjun – en þá var enginn farinn að tala um Kárahnjúkavirkjun. Nákvæmlega hvenær telur Guðmundur Andri að hafi verið rétti tíminn til að mótmæla virkjuninni – á áttunda áratugnum þegar verkfræðingar ljóstruðu upp um sína villtustu virkjanadrauma?
Segjum t.d. að ég væri á móti gerð Norðfjarðarganga (sem ég er ekki – ég er malbiksnörd og finnst jarðgöng æði), væri ég þá orðinn of seinn að mótmæla þeim núna þar sem stjórnmálamenn hafa lýst yfir að af framkvæmdum verði og byrjað er að pjakka í jörðina? Er e.t.v. hægt að skilgreina mótmælafrest varðandi stórframkvæmdir á sama hátt og kærufrestur virkar í stjórnsýslunni?
viii) Saving
Iceland er vissulega útlenska. Það kann vel að vera að sumum finnist rangt að mótmæli á Íslandi spretti af öðrum rótum en þjóðernissinnuðum. Persónulega er ég ekki sammála því. Innan friðarhreyfingarinnar hafa t.d. alla tíð verið margir góðir þjóðernissinnar, en einnig fjöldi fólks sem sótt hefur hugsjónir sínar í almenna friðarstefnu og kann engin ljóð eftir Snorra Hjartar.
ix) Prédikaragrínið í Kringlunni var vissulega skringilegur gjörningur og hefði líklega fallið betur í kramið vestan hafs, þar sem slíkar Billy Graham-týpur eru betur þekktar. Er það samt ekki óþarfa viðkvæmni að túlka slappan brandara sem stórt fokkjú-merki til íslensku þjóðarinnar?
x & xi) Jújú, þetta er örugglega bráðskemmtileg umræða. Ég ætla samt að segja pass.
xii) Þetta er satt og rétt. Sæmilega skynsamt fólk gerði sér fyllilega grein fyrir að mótmælendahópurinn var ekki mannýgur, en löggan fór á taugum að venju. Sé samt ekki alveg hvert GAT ætlar með þessa röksemdafærslu. Hefði verið betra ef hópurinn hefði í raun verið þau stórhættulegu hryðjuverkasamtök sem Stefán Eiríksson lét sig dreyma um? Eða hefur málsgreinin e.t.v. þann tilgang einan að koma að hnyttnu uppnefni um al kaída-krúttin?
xiii) Jamm, unglingauppreisnarrökin hafa löngum reynst drjúg þegar eldra og miðaldra fólk nennir ekki að kynna sér nýjustu hræringarnar meðal unga fólksins. Oft eiga þau rétt á sér, en þó ekki alltaf. Og þess utan er yfirleitt skemmtilegra að fylgjast með slíku umróti (þó það leiði ekki til heimsbyltingar) en að sitja bara heima fyrir framan sjónvarpið, hvort sem það er bilað eða ekki.
* * *
Niðurstaða: Það er ekki mikið á greiningu GAT á Saving Iceland-hópnum að græða – fyrir utan þá augljósu ábendingu að þau tala útlensku. Pistlahöfundinum afturgengna hefði þó mátt vera í lófa lagið að benda á alvarlega veikleika við skipulag og baráttu Saving Iceland-hópsins. Eru þessir einna helstir:
* Margar aðgerðanna eru vissulega frískar og frumlegar, en aðrar eru slappar og spilla fyrir. Látum alveg liggja á milli hluta umræðuna um réttmæti þess að krota á byggingar – en ef verið er að skrifa slagorð er algjört lágmark að þau séu hnyttin, beinskeytt eða feli í sér skýran boðskap. „Greedy Alcoa-Bastards!“ fellur ekki að þeim skilyrðum.
* Þau vantar betri talsmenn. Tilgangur óhefðbundinna mótmælaaðgerða hlýtur að vera sá að vekja athygli og fá færi á að koma málstað sínum á framfæri. Þegar þau tækifæri gefast verður talsfólkið að geta komið máli sínu frá sér svo vel sé.
* Það vantar strúktúr. ín hans getur engin reynsla safnast upp í hreyfingunni og félagarnir eru dæmdir til að gera sömu mistökin aftur og aftur.
* Þau mættu fara oftar í bað. Ég held að Guðmundur Andri sé í raun hræddari við fitugt hár nítján ára stráka en allt veggjakrotið og kranaklifrið.
* Þau mega ekki detta í þann pytt að virðast berjast á móti rafmagni og áli sem slíku. Það er enginn í raun og veru á móti frumefninu áli, alltaf – alls staðar.
Og svo er nú það…