Á dag tók ég mér hálfsdags frí í vinnunni, enda í mörgu að snúast vegna aðgerðanna gegn heræfingunum. Ætli ég hafi ekki tekið 15-20 símtöl við blaðamenn, íslenska og norska. Sat fyrir hjá tveimur blaðaljósmyndurum og lenti í kappræðum á Stöð 2 á sama tíma og Steinunn var í viðtali á RÚV – nepotisminn er greinilega allsráðandi í friðarhreyfingunni. Oná þetta bættust svo sjálfar aðgerðirnar sem voru bráðskemmtilegar en tóku mikið á.
Ætla mætti að ég gæti hugsað mér að blogga langhund um þetta efni – en því fer víðsfjarri…
Eftir þessa törn langar mig bara að hugsa um fótbolta (já, ég veit – ópíum fólksins og það allt).
Luton er komið í aðra umferð deildarbikarsins eftir útivallarsigur á Dagenham & Redbridge sem eru nýliðar í deildarkeppninni. Sigurinn var svo sem ekkert tiltakanlega glæsilegur, en Drew Talbot skoraði annað markið sem er gleðilegt – þar sem hann er einn fárra framherja hjá okkur sem ekki er orðinn hálffertugur.
QPR féll hins vegar úr keppni fyrir Leyton Orient, sem er ergilegt fyrir Stebba Hagalín er gleðilegt fyrir Þór Bæring. Ég skoða reglulega Orient-bloggið hans, því við lesturinn finnst mér alltaf eins og ég styðji risaveldi í fótboltanum og sé ekkert svo sérstaklega galinn!