Listar eru skemmtilegir. Á morgun er ég að spá í að birta lista yfir bestu knattspyrnumenn Íslands fyrr og síðar. Ég verð illa svikinn ef það kallar ekki á fjörlegar umræður í athugasemdakerfinu.
# # # # # # # # # # # # #
Egill Helgason grætur það á bloggsíðunni sinni að Múrinn hafi hætt útgáfu. Það er fallega gert af honum, þó ég sé reyndar ekki sammála því. Ég tel nefnilega að betra sé að menn þekki sinn vitjunartíma í stað þess að þybbast við þar til þeir eru orðnir skrípamynd af sjálfum sér.
Athyglisverðara finnst mér þó að Egill skuli halda að vefritið hafi dregið nafn sitt af Berlínarmúrnum. Alveg er mér fyrirmunað að skilja hvernig þáttastjórnandinn víðförli kemst að þeirri niðurstöðu, a.m.k. veit ég ekki til þess að nokkur orð í þá átt hafi verið látin falla á Múrnum eða af okkur aðstandendum hans.
Múrinn var vefrit Málfundafélags úngra róttæklinga (komman í ú-inu í „úngra“ er nokkuð augljóst Laxness-tribjút). Nafn félagsins var því skammstafað MÚR og MÚR-inn því augljóst viðurnefni.
En auðvitað voru orsakir nafngiftarinnar flóknari en þetta. Um það veit ég manna best, enda er nafnið frá mér komið.
Múrinn er augljós myndlíking. Við lögðum frá upphafi áherslu á að vefritið yrði að vera öflugur gagnagrunnur þar sem auðvelt væri að finna og leita í gömlum greinum. Að þessu leyti stóðum við framar öðrum vefritum sem gefin voru út um þær mundir. Stuttu fréttirnar fóru á forsíðuna en annað efni á undirsíður, þær greinar sem taldar voru „tímalausastar“ og fjölluðu fremur um grundvallarhugmyndafræði eða rakningu sögulegra atburða settum við undir flokkinn „Hleðsluna“. Hér er um að ræða sömu myndlíkingu – við litum svo á að við værum með skrifunum að safna í sarpinn, hlaða vegg, garð eða múr til varnar ákveðnum hugsjónum. Því lengur sem við myndum skrifa – því voldugri yrði veggurinn eða múrinn.
Múrinn er sömuleiðis þekkt hugtak á norðurslóðum í fátækum bændasamfélögum sem byggðu helst hús sín úr torfi. Vegleg steinhús – byggingar sem áttu að lifa lengur en í nokkur misseri – fengu gjarnan sæmdarheitið „múr“ eða „múrinn“. Þannig var Stjórnaráðshúsið í Reykjavík upphaflega þekkt sem Múrinn – og hin magnaða dómkirkja í Kirkjubæ í Færeyjum (fáránlega stór steinhlaðin dómkirkja sem tekur öllu fram sem Íslendingar reyndu að byggja fyrr á öldum) heitir Múrurinn á máli heimamanna.
Og auðvitað voru múrarnir fleiri. Ef ég væri beðinn um að nefna það fyrsta sem kæmi upp í hugann þegar orðið „múr“ er nefnt, þá yrði það ekki Berlínarmúrinn heldur Kínamúrinn. Lengi var haft fyrir satt að það væri eina mannvirkið á Jörðinni sem sæist frá Tunglinu. (Sagan sagði raunar líka að þessi staðreynd hefði gert Caucescu einræðisherra Rúmeníu svo öfundsjúkan að hann afréð að leika það eftir með höll alþýðunnar í Búkarest sem mun vera eitthvert mesta skrímsli í byggingarsögu heimsins.) Fleiri múra mætti nefna til sögunnar – s.s. Hadríanusarmúrinn í Skotlandi (sem ég held mikið uppá sem Skotlandsvinur). Um marga þeirra var fjallað í greinaflokknum Múrar mannkynssögunnar á fyrsta starfsári vefritsins.
Á mínum huga vísaði nafnið Múrinn þó aldrei í neitt tiltekið mannvirki, heldur frekar í þessa abstrakt hugmynd um óárennilega manngerða byggingu með ákveðinn tilgang. Ég get svo sem viðurkennt að hafa horft til nafna á borð við Krossinn og Vegurinn, sem mér finnst hvort tveggja vera mjög svöl heiti á trúfélögum.
Mér fannst Múrinn alltaf vera helvíti töff nafn. Og mér finnst það eiginlega ennþá. Það var ekki hvað síst vegna þess að ég gaf mér þá forsendu að hver einasti maður myndi skilja hversu margrætt nafnið er og hvað það skírskotar í margar áttir.
En auðvitað mátti svo sem búast við því að einhverjir kysu að túlka það á þann hátt að með nafninu vildum við gera grín að því fólki sem var skotið var með köldu blóði þegar það reyndi að flýja yfir víggirðinguna milli Austur- og Vestur-Berlínar. Á mínum huga segja slíkar túlkanir þó mest um þá sem setja þær fram.