íkvörðunin hefur verið tekin. Ég er hættur að blogga. Lesendur sem lagt hafa í vana sinn að heimsækja bloggsíðuna Um tilgangsleysi allra hluta geta hætt því.
Ekki svo að skilja að ég sé hættur að skrifa hugleiðingar á netið, sem verða aðgengilegar á þessari vefslóð. Neinei, ég ætla bara að ganga á hönd hinni nýju hátækniorðræðu.
Krafa samtímans er hátækni. Allt verður einhvern veginn betra, flottara og dýrara ef það heitir hátækni-e-ð. Það er ekkert töff að byggja spítala, en allir vilja hátæknisjúkrahús. Fyrirtækið sem ætlar að byggja olíuhreinsunarstöð fyrir vestan kallar sig Íslenskan hátækniðnað eða e-ð álíka. Og þegar Yahoo, Microsoft og Google biðja um að fá að kaupa rafmagn til að reka geymslur sem er í raun bara stórir kæliklefar – þá heitir húsvarðadjobbið „hátæknistörf við rekstur netþjónabúa“.
Ég vil taka þátt í þessu. Hér með hefur því verið ákveðið að Um tilgangsleysi allra hluta sé ekki lengur bloggsíða heldur „hátæknihugveita“ og ég því ekki lengur bloggari heldur „hátæknihugveitir“.
Spurning um að breyta skráningunni í Símaskránni líka?