Kláraði Rebus á laugardaginn. Þetta er fín bók og greinilegt að Rankin er allan tímann harðákveðinn í að kveðja persónuna sína – og jafnvel Edinborg í leiðinni, því hann lætur söguþráðinn fara um víðan völl og persónur leggjast í mikill pöbbaráp til að hann geti komið sem flestum stöðum að. Þetta er fín bók fyrir alla sem hafa gaman af reyfurum, en frábær fyrir þá sem þekkja aðeins til í gömlu borginni í Edinborg.
Mun Rebus skjóta upp kollinum seinna? Já, ég giska á það.
Að því gefnu að Rankin ákveði ekki si svona að fara snemma á eftirlaun að telja peningana sína, má búast við því að hann sendi frá sér næstu glæpasögu innan fárra ára. Það er mjög líklegt að hann geri Siobhan Clarke að aðalsöguhetjunni – hún er orðin það meitlaður karakter hjá honum og að sumu leyti í aðalhlutverki í nokkrum nýrri bókanna.
Hvaða bókaútgefandi sem er myndi þrýsta á Rankin að láta Rebus koma fyrir – þótt ekki væri nema í aukahlutverki í slíkum bókum.
Annars væri líklega skemmtilegast að sjá Ian Rankin taka sér eitthvað allt annað fyrir hendur. Ég myndi hiklaust kaupa eftir hann skáldsögu þar sem engin væri morðgátan eða fúllyndir lögregluforingjar.
# # # # # # # # # # # # #
Á dag fékk barnið að krota með penna á ÖBí-bréf sem Steinunn átti. Hún vandaði sig óskaplega mikið og þegar afraksturinn var kannaður kom í ljós að hún var búin að krota yfir (eða reyna að gera hring í kringum) öll Ó, S og lítil-g. Hún hefur lengi þekkt Ó – stafinn sinn (en vill reyndar líka sölsa undir sig Ö, O og núll). Sama gildir um S, sem er mömmu og pabba stafur. Litla g-ið er hins vegar nýtilkomið. Það er stafurinn þeirra Guðmundar frænda og Garra (svila míns). Tölustafurinn 9 er talinn jafngilda litlu-g.
Það er ekki amalegt að kunna þrjá stafi. Mér skilst að ég hafi bara þekkt tvo stafi á hennar aldri, S og Z (sem helv. þingið þurfti svo að afnema).
Næsta skref er að eignast fleiri vini og kunningja með óvenjulega upphafsstafi fyrir barnið að læra. Það væri sem sagt fínt að kynnast einhverjum Xerxes, Yasmine, Walter eða Zorglúbb…