Guðfinna S. Bjarnadóttir skrifar grein í Lesbók Moggans í dag, þar sem hún útskýrir hvers vegna hún greiddi atkvæði eins og hún gerði á þingi Evrópuráðsins varðandi sköpunarhyggjuna og vísindakennslu.
Á málsvörn sinni vísar hún sérstaklega til bókar Kuhns um gerð vísindabyltinga og þá sérstaklega hugmynd Kuhns um viðmið – eða paradigma – í vísindum. Skilningur fyrrum háskólarektorsins á paradigma-hugtaki Kuhns er afar bágur ef hún telur að það geti náð yfir deilur þróunarkenningar- og sköpunarhyggjufólks. Líklega hefðum við Þorsteinn Vilhjálmsson kolfellt hana fyrir svona útleggingar á prófi hjá okkur í vísindasögunni í Háskólanum.
Aumingja Kuhn! Með bók sinni leitaðist hann við að skýra með hvaða hætti fylgismenn tiltekinna vísindakenninga vinna að framgangi þeirra og hvernig stórfelldar breytingar á skilningi okkar á umheiminum nái fram að ganga. Alltaf skulu hins vegar einhverjir halda að Um gerð vísindabyltinga sé eins konar Karlar eru frá Mars – konur eru frá Venus, um vísindastarf – og að mórallinn sé sá að vísindaleg samræða sé óþörf og ómöguleg.