Klukkan tvö í nótt vaknaði ég við að Steinunn potaði í vömbina á mér og spurði hvort ég fyndi ekki reykjarlykt? Ég byrjaði að umla einhver afsökunarorð – enda hélt ég að hún væri að kvarta yfir lyktinni af viský-staupinu sem ég fékk mér fyrr um kvöldið.
Nokkrum sekúndum síðar vorum við búin að brölta fram á gólf og hnusuðum í öllum skúmaskotum. Þá lá leiðin fram á gang til að finna hvort nágrannarnir væru að brenna ofan af okkur kofann. Svo reyndist ekki vera.
Loks opnuðum við út og reyndum að sjá einhver ummerki um bruna. Þar var ekki köttur á kreiki. Ekkert hljóð – engin blikkandi ljós. Eftir smátíma greindum við reyk í fjarska. Steinunn hringdi í 112 til vonar og vara, en þeir könnuðust við málið.
Á morgun las maður svo á netmiðlunum að bruninn hafi verið í bárujárnshúsi á Grettisgötu vestan Snorrabrautar. Ég kalla mína góða að ná að vakna við reykjarlyktina af þessu færi.