Stóra efnahagsmálauppljóstrun helgarinnar er sú að ef hækkun á húsnæðisverði er ekki talin með, þá sé verðbólga á Íslandi sáralítil. Guðmundur Ólafsson bætir um betur og vill sleppa olíunni út úr reiknimódelinu líka, enda ráðum við engu um þróun verðlags á henni.
Þetta minnir mig dálítið á fv. borgarstjóra Washington sem sagði eitthvað á þá leið að glæpatíðnin í borginni væri alls ekkert svo mikil – ef morðin væru ekki talin með…
Hvaða tilgangur er í því að reikna út verðbólgu sem undanskilur það sem helst hækkar í verði eða er „ekki okkur að kenna“? – Við ættum kannski að sleppa ennþá fleiri þáttum út úr vísitölunni, kannski við myndum þá komast að þeirri niðurstöðu að við búum við verðhjöðnun!