13. nóvember er ammælisdagurinn okkar Steinunnar eins og fram hefur komið. Honum hefur síðustu ár ýmist verið varið í pólitísk fundarhöld eða við höfum farið út að borða. Á kvöld varð seinni kosturinn fyrir valinu.
Barnið fékk að fljóta með – og hún varð strax hrifin af hugmyndinni um að fara á veitingahús. Okkur hefur í seinni tíð lærst að tala um að „fara á veitingahús“ – því Ólína verður alltaf fyrir vonbrigðum þegar við förum „út að borða“ en reynumst svo sitja innandyra…
Laugaás varð fyrir valinu. Held ég hafi ekki étið þar frá því ég var krakki. Samt þykir mér alltaf vænt um Laugaás, því Framari leiksins fékk alltaf málsverð fyrir tvo hér á árum áður.
Við féllum fyrir humarveislunni – humarsúpa í forrétt og hvítlauksristaðir humarhalar í aðalrétt. Afar ljúffengt.
Laugaás er annars sérkennilegur veitingastaður. Mér er til efs að margir veitingastaðir séu með humar- og villibráðarmatseðla en bjóða jafnframt upp á margar gerðir af hamborgurum. Stemningin er líka svo afslöppuð að maður hikar ekki við að taka smákrakka á þriðja ári með sér, því það amast enginn við því þótt grísinn skottist um salinn.
Muna: fara aftur á Laugaás!
# # # # # # # # # # # # #
Á dag rakst ég á klausu í gamalli fundargerðarbók sem bendir til þess að Framarar hafi verið hársbreidd frá því að ráða sér knattspyrnuþjálfara sumarið 1947 sem var um þær mundir eitt af STÓRU nöfnunum í knattspyrnuheiminum.
Hver var maðurinn? – Það verður ekki gefið upp að sinni.
# # # # # # # # # # # # #
Andinn í glasinu er Bruichladdich, besta nýja viðbótin við viský-úrvalið í Ríkinu.
Diskurinn yfir geislanum er Evergreen með Echo & the Bunnymen. Nýkominn með póstinum (já, ég er dínósár sem kaupi ennþá geisladiska).