Þegar langafi drap trúarbragðasöguna

Dróst inn í­ umræður á bloggi séra Baldurs Kristjánssonar um trúarbragðafræði, þar sem ég rifjaði upp sögu af langafa. Ætli það fari ekki vel á því­ að endursegja hana hér:

Steinþór Guðmundsson, langafi minn, var maður stórra hugsjóna. Sem ungur maður lifði hann fyrir Ungmennafélagshreyfinguna. Hann dreymdi um að verða stærðfræðingur eins og Ólafur Daní­elsson – eða verkfræðingur (þá helst námaverkfræðingur) og vinna að endurreisn Íslands. Hann varð eldheitur sósí­alisti, en var jafnframt trúaður maður. Hann lauk t.d. guðfræðiprófi á mettí­ma með toppeinkunn, en ætlaði sér þó aldrei að þjóna fyrir altari. Hans köllun var að kenna stærðfræði og guðfræðin var bara leið að kennsluréttindunum.

Þegar afi var í­ Menntaskólanum í­ Reykjaví­k á strí­ðsárunum, var trúarbragðasaga meðal kennslugreina. Kennslubókin var á sænsku og nemendurnir hötuðust við hana – enda ekkert auðvelt fyrir óvana að lesa sænsku. Einhverju sinni er afi að barma sér undan þessum leiðindum, þegar Steinþór langafi biður hann um að lána sér bókina. Hann settist svo niður og snaraði henni yfir á í­slensku. Sí­ðar lét hann fjölrita kverið á eigin kostnað.

Þetta reyndist glapræði.

íður hafði það tekið mennstskælingana margar vikur að berja sig í­ gegnum sænsku bókina, en nú var komin aðgengileg þýðing sem auðveldlega var hægt að lesa á einni kvöldstund. Þar með var námsefnið orðið svo fljótlesið og aðgengilegt að ekki þótti lengur verjandi að hafa það á námsskránni. Trúarbragðasagan var því­ felld niður – langafi sat uppi með lager af óseldum bókum og margar kynslóðir MR-inga útskrifuðust án þess að vita neitt um Búdda og Múhameð.