Fyrir nokkrum mánuðum ljóstraði ég því upp á þessumm vettvangi að von væri á fyrstu íslensku bloggbókinni. Færslan vakti athygli blaðamanna sem fóru á stúfana – með þeim afleiðingum að höfundurinn fékk í magann og hætti næstum við allt saman.
Ég tek fram að með bloggbók á ég ekki við skrif eins og „Vaknað í Brussel“ eftir Betu rokk sem var auglýst sem fyrsta bloggbókin – en var í raun skáldsaga eftir manneskju sem jafnframt var bloggari. – Nei, alvöru bloggbók er bók sem er að mestu eða öllu leyti prentuð útgáfa af bloggfærslum og kallast helst á við bloggsíðu höfundar.
Og núna er bókin komin! Jón Knútur ísmundsson, bloggari og nýráðinn starfsmaður austurlandsdeildar RÚV er búinn að senda frá sér bókina NESK. Hún virðist enn ekki vera komin í almenna sölu í Reykjavík – en úr því hlýtur að verða bætt á næstu dögum.
Þetta er bráðskemmtileg bók, hvað allir athugi.