Á dag átti ég erindi við mann sem býr í Hvassaleiti. Á einhverju hugsunarleysi punktaði ég heimilisfangið vitlaust hjá mér og ók sem leið lá á Háaleitisbrautina. Þar stoppaði ég fyrir framan rétta húsnúmerið.
Nafnið á bjöllunni var torkennilegt og ég var eitthvað að vandræðast, þegar eldri maður renndi í hlað og spurði hvert erindið væri? Ég bar upp nafnið á hinum meinta húsráðanda og spurði hvort sá ætti ekki heima þarna.
Sá gamli neitaði – hugsaði sig svo aðeins um – og bætti við: „En ég er með bréf til hans.“
Hann snaraðist inn og kom svo aftur með 2-3 daga gamalt jólakort til mannsins sem ég hafði ætlað að hitta – sent á sama ranga heimilisfangið.
Magnað!