„Ekki rifja upp stríðið…“ sagði Basil Fawlty í klassísku atriði í þáttunum um Hótel Tindastól.
Þessi sena rifjaðist upp við lestur bæklingsins sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins sendi frá sér í dag. Hann lítur vel út og er um flest læsilegur… en það er eitthvað sem vantar.
Yfirbragðið minnir á það sem vænta mætti frá stjórnarflokkum en ekki flokki í stjórnarandstöðu. Þarna eru rifjuð upp verk borgarstjórnar á fyrstu sextán mánuðum kjörtímabilsins – og því næst fjallað um hvað þau ætli að gera næst í hverjum málaflokki.
Ein sárasaklaus setning víkur að öllu því sem á undan er gengið. Vilhjálmur skrifar: „Því miður höfum við ekki lengur sömu tækifæri til að koma ýmsum verkefnum okkar í framkvæmd.“
NEI! Á ALVÖRU???
Gott og vel. Látum vera þótt ekki sé vikið einu orði að REI-málum eða slitum meirihlutans. Þeim ber svo sem engin skylda til þess…
…en hvernig í ósköpunum er hægt að gefa út sextán blaðsíðna bækling í A3-broti sem fjallar um ALLA helstu málaflokka borgarstjórnarmálanna… NEMA Orkuveituna?
Á fljótu bragði sýnist mér að ljóta orðið – Orkuveitan – sé hvergi nefnt í öllum bæklingnum. Hvernig er t.d. hægt að skrifa heila síðu með fjölda punkta um umhverfismál án þess að geta um fyrirtækið? Eða fjármál borgarinnar? Snerust þau ekki einmitt svo mikið um reikningsskil milli borgarinnar og OR hér fyrir nokkrum misserum?
Eftir á að hyggja hefðu Sjálfstæðismenn átt að splæsa í stutta klausu um málefni OR. Með þessu móti verður fyrirtækið nefnilega eitthvað svo furðu nálægt í fjarveru sinni…