Eftir lífróður Luton Town síðustu vikur, veit ég skyndilega miklu meira um bresk gjaldþrotalög en ég hafði áður kært mig um að vita. Þótt fréttirnar af framvindu mála séu brotakenndar og oft fullar af ýkjum og uppspuna.
Við erum sem sagt í því sem Bretar kalla „Administration“, sem líklega er réttast að þýða sem greiðslustöðvun. Það þýðir að skuldir félagsins eru frystar og okkur er settur fjárhaldsmaður (líklega dómskipaður). Þessi fjárhaldsmaður rekur félagið, en er óheimilt að auka skuldir félagsins á meðan.
Aðalhlutverk fjárhaldsmannsins er að finna félaginu nýjan eiganda (eða sama aðila á nýjan leik) – á grundvelli besta tilboðsins er svo gengið til nauðarsamninga þar sem lánardrottnum er boðin ákveðin hlutfallsgreiðsla af skuldum. Væntanlega geta stærstu lánardrottnar þó hafnað tilboðinu og knúið félagið í þrot.
Það sem manni finnst merkilegast við þetta fyrirkomulag er að það eru ekki lánardrottnarnir sem velja sér samningsaðila, heldur fjárhaldsmaðurinn. Og hann á að velja – ekki aðeins út frá hagsmunum lánardrottna – heldur ekki síður út frá hagsmunum félagsins og tryggja þannig viðhald þess.
Þetta sýnist manni vera nokkuð önnur hugsun varðandi málefni félaga eða fyrirtækja í greiðsluerfiðleikum og við eigum að venjast hér heima, þar sem allt snýst um veð og tryggingar.
Tveir aðilar hafa lagt fram tilboð í félagið:
Annars vegar félag sem fjöldi stuðningsmanna liðsins stendur að ásamt bandarískum athafnamönnum. Það styðja allir góðir menn.
Hins vegar fasteignabraskari sem á lóð sem hann vill selja undir fótboltavöll. Hann er hataður og fyrirlitinn.
Hmmm… hvern ætti maður nú að velja?