Þegar Jón Viðar, leikhúsgagnrýnandi DV, hóf sýninguna Brák til skýjanna í nýlegum leikdómi – hélt ég að hann væri öðrum þræði að reyna að sýna fram á að fýlubombur hans í Borgarleikhússins væru ekki til marks um almennt fúllyndi gagnrýnandans og að hann gæti VíST verið jákvæður.
Eftir að hafa sjálfur séð sýningu Brynhildar Guðjónsdóttur – Brák – í landnámssetrinu í Borgarnesi, sé ég hins vegar að Jón Viðar skrifaði af sannfæringu. Brák er einfaldlega frábært verk og með því skemmtilegra sem ég hef séð í íslensku leikhúsi.
Mr. Skallagrímsson – frábært stykki Benedikts Erlingssonar – er augljóslega innblásturinn að þessu verki og Brynhildur notar ýmsar sömu brellur og Benedikt í túlkun sinni á Egilssögu. Munurinn liggur hins vegar í því að Benedikt þarf að troða langri Íslendingasögu í tveggja klukkutíma leikverk – meðan Brynhildur teygir 12 línur upp í heila sýningu.
Fyrirfram var ég sannfærður um að verkið myndi gjalda fyrir það hversu rýr efniviðurinn væri – en það var mikill misskilningur. Það þurfti ekkert að seilast um víðan völl eða teygja efnið langt út fyrir sögu Þorgerðar brákar. Ég fékk jafnvel á tilfinninguna í sýningarlok að það væri nóg eftir í framhald…
Brák er leiksýning sem fólk má ekki missa af. Fjarlægðin við Reykjavík á ekki að vera neitt vandamál. Það er fínt kaffi-/veitingahús á staðnum. Bara að leggja nógu snemma af stað.
Ein ábending samt til rekstraraðila hússins… nú er vissulega lágt til lofts, en það myndi gera mjög mikið fyrir sýningarsalin ef hægt væri að lyfta aftari sætaröðinni upp með t.d. 10 cm. háum palli…