Sérviskulegur Bakþanki nýjasta pistlahöfundarins í Fréttablaðinu um „Rottumanninn“ í Ráðhúsinu – hefur kallað á karp á bloggsíðum. Ég ætla ekki að blanda mér í það.
Þetta orð „Rottumaðurinn“ skapar hins vegar sterk hugrenningartengsl við bók sem ég las sem strákpatti og hafði talsverð áhrif á mig.
Bókin var „Frans rotta“ eftir Hollendinginn Piet Bakker. Ciske de Rat hét hún víst á frummálinu.
Sagan er hreinræktað tilfinningaklám. Hún segir frá bláfátækum hollenskum götustrák sem er rottulegur í útliti og allir eru vondir við – nema góði kennarinn. Bókin um Frans rottu er nánast samfelld eyðimerkurganga Rottumannsins hollenska og vonarneistinn sem kveiktur er í lokin gerir lítið til að kæta unga lesendur.
Bókin um Frans rottu var til heima hjá afa og ömmu á Neshaganum – og þar var líka að finna eintak af framhaldinu – Uppvaxtarárum Frans rottu – í henglum. Raunar í slíkum henglum að lokakaflana vantaði. Ég byrjaði samt að lesa.
Frans rotta hélt áfram að bíða lægri hlut í lífinu. Svo fór að lokum að hann kom að móður sinni sem var að hórast með ljótum karli og þau viðkipti enduðu með því að Rottumaðurinn drap móður sína óvart með búrhníf og fór í steininn. Þar lauk handritinu.
Þetta varð mér gríðarlegt áfall og örlög Frans rottu urðu mér gríðarlega sterk í huga. Ekki vegna þess að bókin væri svo vel skrifuð, því það var hún svo sannarlega ekki, heldur vegna þess að þetta var fyrsta bókin sem ég las á ævinni sem endaði illa. Það er trámatísk lífsreynsla.
Það var ekki fyrr en tuttugu árum síðar að ég komst að því að bækurnar um Frans rottu (sem seldust í bílförmum um alla Evrópu á árunum strax eftir stríð) voru þrjár. Á lokablaðsíðunum týndu var Rottumanninum sleppt úr grjótinu, hann bjargaði strák frá drukknun og var hylltur sem hetja. Á þriðju bókinni er rottan orðin stríðshetja sem sallar niður nasista – og allt vonda fólkið skammast sín fyrir að hafa líkt honum við rottu.
Ef ég hefði komist í þessar bækur á sínum tíma er pottþétt að ég væri búinn að steingleyma öllu um Frans rottu. Sennilega hefði plottið þó farið verulega í taugarnar á mér – enda þurfa menn líklega að vera óðir Kalvínistar til að finnast það bara svalt að láta aðalpersónur í barnabókum stinga mæður sínar á hol fyrir að sænga hjá körlum úti í bæ. – En hvað veit ég – heiðinginn – um kristilegt siðgæði?
Nú segir Wikipedian mér að í fyrra hafi verið frumsýndur söngleikur í Amsterdam um Rottumanninn og að drottningin hafi mætt á frumsýninguna. Er hér komin hugmynd fyrir Magnús Geir í nýja djobbinu?