Síðdegis fór ég í Útvarpshúsið og keypti spólu með upptökum af Stundinni okkar í umsjón Gunna og Felix.
Ólína elskar Gunna og Felix. Spólan með sveitasælu – afmælisveislu Gunna – hefur rúllað ótal sinnum í gegnum tækið á Mánagötunni.
Börn geta horft út í hið óendanlega á sama efnið – svo allir foreldrar vita hversu mikils virði það er að barnaefnið sem spilað er í síbylju sé ekki gjörsamlega óþolandi og forheimskandi. Barnaefnið sem þeir Gunni og Felix bjuggu til er fantagott og hefur bjargað geðheilsu ófárra foreldra.
Á RÚV-versluninni stóð mér reyndar bara til boða að kaupa fyrri spóluna um ævintýri þeirra félaga, en á vefversluninni er bara seinni spólan boðin til kaups. Hún fannst hins vegar hvergi á lagernum.
Þá er bara spurningin hvort Gunni og Felix 2 sé fáanleg í Skífunni eða á öðrum mögulegum sölustöðum…