Framkvæmdafréttir bárust í dag. Veglegt rit að þessu sinni og að mestu helgað mislægum gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þetta yrði mikið mannvirki en þó ekki alveg það skrímsli sem ég hafði ímyndað mér, t.d. gnæfði það ekki nema 2,5 m. hærra en núverandi gatnamót.
En annað vakti þó meiri athygli mína – stokkarnir fyrirhuguðu á Miklubrautinni.
Umræðan um stokkalagninguna hefur verið á þeim nótum að áhrifin yrðu gríðarlega styrkjandi fyrir aðliggjandi hverfi – þar sem þau yrðu ekki sundurskorin af stórum umferðaræðum. Þannig er talað um að „sameina“ Hlíðahverfið.
Að sumu leyti minnir tillagan sem kynnt er nú á flutning Hringbrautarinnar – þar sem margir ímynduðu sér að gamla gatan hyrfi fyrir fullt og allt. Þeir sömu urðu óskaplega hissa þegar í ljós kom að samhliða nýju Hringbrautinni yrði „Gamla Hringbraut“ enn við lýði – bara með einni akrein í hvora átt.
Þessar hugmyndir fela í sér að „Gamla Miklabraut“ verður enn við lýði – ofaná stokknum. Milli Bústaðavegs og Stakkahlíðar yrði Miklabraut í raun á tveimur hæðum. Aðalumferðin í kjallaranum en „Gamla Miklabraut“ yrði eftir sem áður með 20 þúsund bíla á dag.
Gatan sem lægi í gegnum hverfið minnir helst á Háaleitisbrautina – ein akrein í hvora átt, með stór bílastæði á aðra hlið. Enginn sem æki um þessa götu myndi líta svo á að hann væri að keyra í íbúðarhverfi – ekki frekar en bílstjórar gera á Háaleitisbrautinni eða Gömlu Hringbraut ef því er að skipta. Ég fæ ekki séð að verið sé að sameina nein hverfi með þessari lausn.
Ekki misskilja – ég er ekki að segja að framkvæmdin sé slæm eða vitlaus. Þvert á móti er ég viss um að hún mun gagnast ágætlega til að leysa úr umferðartæknilegum vandamálum. En þá eiga menn líka að kynna hana þannig – sem umferðarmannvirki til að koma fólki frá vestri til austurs en ekki klæða hana í þann búning að verið sé að gera byggðinni í hverfinu stórkostlegan greiða.
# # # # # # # # # # # # #
Sé líka í framkvæmdafréttum að það eru ekki nema svona 400 metrar eftir í gangagerðinni frá Siglufirði til Héðinsfjarðar. Leggurinn til Ólafsfjarðar er hins vegar mun lengri og styttra kominn. Ætli það megi ekki búast við því að komið verði í gegn um mánaðarmótin apríl/maí. Eitthvað segir mér að þá muni rigna inn fréttum af pulsupartýum Siglfirðinga í Héðinsfirði o.þ.h.
Súðvíkingar biðja nú um göng. Það sé ég nú ekki ganga í gegn á næstu tíu árum. En hvað ætli slík framkvæmd myndi stytta leiðina fyrir Djúpið um marga kílómetra?