Perlan er eitt af floppum íslenskrar byggingarsögu. Ekki vegna þess að byggingin sem slík sé algjörlega misheppnuð. Hún er raunar nokkuð falleg, þótt enn hafi enginn náð að láta sér detta í hug hvernig megi nýta hana.
Klúðrið lá í bruðlinu með almannafé – þar sem húsið fór langt, langt fram úr öllum áætlunum. Ein af meginástæðunum var sú að verið var að breyta teikningum í sífellu löngu eftir að framkvæmdir voru komnar á fulla ferð. Þannig geta þeir sem unnu við bygginguna sagt margar sögur af veggjum sem búið var að steypa á mánudegi en ákveðið að rífa og flytja á þriðjudegi.
Maður var farinn að vona að svona vinnubrögð væru úr sögunni.
En nú er útlit fyrir nýjan skandal – á Geirsgötunni. Þar er nýbúið að opna götuna á ný eftir miklar framkvæmdir, þar sem meðal annars var gengið frá lögnum og ræsum fyrir nýja tónlistarhúsið. Það voru engar smáframkvæmdir, enda þurfti að komast framhjá frumskógi af gömlum lögnum og leiðslum frá liðnum áratugum sem erfitt var að segja til um hvort væru í notkun eða ekki. Það tókst þó að lokum.
En menn eru ekki fyrr búnir að klára þetta verkefni en að ætlunin virðist vera að rífa allt draslið upp aftur og byrja upp á nýtt. Geirsgatan á þá samkvæmt nýjustu hugmyndum að fara oní jörðina. Nokkuð sem hefði ef til vill verið ágætis hugmynd strax í upphafi – en það væri fróðlegt að fá mat sérfræðinga á því hvað þessi vinnubrögð, að framkvæma fyrst og hugsa svo, munu koma til með að kosta sameiginlega sjóði. – Og tölum þá ekki um ónæðið fyrir umferðina á tvöföldum framkvæmdatíma.