Á Fréttablaðinu í dag er viðtal við Baldur Þórhallsson, sem heimsótti Venesúela á dögunum. Þar kom eitt og annað fram. Margt af því eflaust satt og rétt – annað hljómaði skringilega og virtist fyrst og fremst vera vísbending um þjóðfélagsstöðu viðmælenda Baldurs í ferðinni.
Tökum þrjú dæmi:
i) Smkv. Baldri er há glæpatíðni í Venesúela tilkomin vegna þess að stjórnvöld í landinu hafi alið á fordómum gegn ríku fólki – og því þyki almenningi sjálfsagt að ræna þá ríku. Væntanlega er há glæpatíðni í öðrum ríkjum Rómönsku Ameríku á sama hátt afleiðing af málflutningi vinstrisinnaðra stjórnmálamanna. Skyldi sama regla gilda hér á landi? Ætli það sé fylgni milli sjoppurána og góðs gengis VG og Samfylkingar í skoðanakönnunum.
ii) Baldur segir að bensín sé niðurgreitt fyrir almenning í Venesúela og raunar líka fyrir sérstaka vildarvini ríkisstjórnarinnar, s.s. borgarstjórnina í Lundúnum. Nú er ég ekki kunnugur þessum samningum en leyfi mér þó að draga verulega í efa að borgað sé með bensíninu. Það gæti hins vegar verið selt með lágmarksálagningu eða jafnvel á kostnaðarverði – en það er ekki það sama og að það sé niðurgreitt. Frá umhverfislegu sjónarmiði er auðvitað ekki skynsamlegt að ýta undir olíunotkun almennings en frá pólitísku sjónarmiði getur það talist eðlilegt að leyfa fólki að njóta góðs af sameiginlegri auðlind með þessum hætti. Hér mætti t.d. draga upp samlíkingu við fiskinn hér heima. Allir mega veiða ser í soðið þótt kvótalausir séu.
iii) Á viðtalinu kemur fram að barnabætur í Venesúela séu alltof háar, með þeim afleiðingum að fólk nenni ekki að vinna í frumframleiðslustörfunum. Það eru nokkur tíðindi að heyra það frá sósíaldemókratanum Baldri að þriðja heims ríkið Venesúela hafi náð þeirri mettun í velferðarkerfi sínu að það sé farið að sliga samfélagið og orðið vinnuletjandi. Hvað skyldi hann þá segja um velferðarkerfi Vesturlanda? – Íslendingar eiga jú erfitt með að manna störf í frumframleiðslunni og þurfa að flytja inn erlent verkafólk í stórum stíl – er ekki rökrétt að Baldur fari næst að tala fyrir lækkun barnabóta og greiðslna til láglaunafólks? Eða er velferðarkerfið orðið svona miklu öflugara í Venesúela en á Íslandi?