Einelti á netinu og í fjölmiðlum er hvimleitt fyrirbæri. Mér sýnist nýjasta fórnarlambið vera Egill Helgason. Á Fréttablaðinu í dag gantast Bergsveinn Sigurðsson með orðskýringar Egils, sem lýkur oft færslum sínum með því að kynna fyrir lesendum hugtök úr helstu erlendu tungumálunum.
Á gær var Egill svo „dissaður“ úr óvæntri átt – frá Birni Bjarnasyni sem skrifaði í dagbók sína:
Fyrir nokkrum mánuðum birtist dagbókardálkur í vikuritinu The Spectator eftir Andrew Roberts, sem var á ferð í Bandaríkjunum og kynnti nýja bók sína um sögu enskumælandi þjóða. Dálkurinn vakti mikla athygli fyrir „name dropping“ höfundar – hann tíundaði rækilega allt fræga fólkið, sem hann hitti og var ekki síður hrifinn en Össur Skarphéðinsson, af því að hafa hitt George W. Bush, forseta Bandaríkjanna.
Lesendur The Spectator voru ekki allir sáttir við, að Roberts væri að gera sig merkilegri í augum þeirra með því að nefna frægt fólk til sögunnar og þótti í raun óþarfi – hann væri nógu merkur af sjálfum sér.
Mér datt þetta í hug, þegar Egill Helgason lét þess getið, að hann hefði séð Vanessu Redgrave í rauðri flíspeysu á Heathrow-flugvelli við komu sína til London í vikunni, og síðan Boris Berezovskí, heimsfrægan, landflótta rússneskan auðkýfing, á sushistað.
Þetta er nú eiginlega fyrir neðan beltisstað hjá dómsmálaráðherra.
Þvert á móti finnst mér Egill vera ótrúlega alþýðlegur ef haft er í huga hversu frægur hann er. Margir myndu brotna undan oki frægðarinnar. Ekki skrítið að Egill bregði sér stundum til fjarlægra landa, þar sem þeir Dylan geta hlaðið batteríin, í hvíld frá sviðsljósinu.