Fréttablaðið reynir að búa til skandal úr gamalli knattspyrnuferð Alþingismanna til Færeyja, með þeim rökum að þar hafi verið flogið með einkaþotu og að Steingrímur Joð hafi verið meðal farþega og sé því orðinn ómerkingur.
Mig rámaði í þessa ferð – enda var nokkuð fjallað um hana í blöðum á sínum tíma. Smá gúggl og leit á Tímaritavefnum skilaði fljótlega niðurstöðum – og velti upp áleitnum spurningum: hvað með Villa Vill?
Það var sem mig minnti að leikurinn fór fram á Ólafsvöku sumarið 1999. Um hann er fjallað í Morgunblaðinu fimmtudaginn 29. júlí á bls. 12. Þar segir að færeysku þingmennirnir hafi unnið 6:5, að leikurinn hafi verið skipulagður af Færeyjadeild Amnesty International og er haft eftir írna Johnsen að ferðin hafi verið á vegum þingmannanna sjálfra og að þeir hafi sjálfir greitt fararkostnað. Sé það rétt eftir írna haft er mér til efs að hópurinn hafi splæst í þotu, þar sem slíkt var talsvert dýrara fyrir áratug en nú um stundir – en það er svo sem ekki aðalatriðið.
Það forvitnilegast í þessu máli er að lesa hvernig íslenska liðið var skipað. Á frétt Morgunblaðsins segir: „Lið Íslands var skipað blöndu af starfsmönnum Alþingis og alþingismönnum, en alþingismennirnir voru írni Johnsen, Vilhjálmur Egilsson og Tómas Ingi Olrich, Sjálfstæðisflokki, Steingrímur J. Sigfússon Vinstri grænum, Lúðvík Bergvinsson Samfylkingunni og Kristinn H. Gunnarsson Framsóknarflokki. Auk þess tók þátt einn fyrrverandi alþingismaður, Ingi Björn Albertsson.“
Þetta var dálítið öðruvísi en mig minnti – því á sínum tíma fannst mér einmitt svo kátlegt að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, fv. ungstirni Samfylkingarinnar og knattspyrnukempa með Fram og Þrótti – skyldi hafður í för sem einn Alþingismanna. Hann hafði þá setið í tíunda sæti Samfylkingarinnar í Rvík., sem fékk fimm menn kjörna þá um vorið. Strangt til tekið mátti hann því heita varaþingmaður en kom aldrei nálægt því að setjast á þing.
En blaðamaður Moggans getur ekki um Villa Vill. Skrítið. – Enn undarlegra verður málið þó þegar knattspyrnuferðinni er gúgglað. Þá má sjá myndaþátt á heimasíðu Kristins H. Gunnarssonar. Þar á meðal er ljósmynd af vöskum hópi manna, við hana hefur Kristinn skrifað nöfn Íslendinganna á myndinni – en getur að engu manns í svörtum bol með krosslagðar hendur, sem svipar óneitanlega nokkuð til Vilhjálms H. Vilhjálmssonar.
Er von að maður spyrji: hvað með Villa Vill? Lék hann með í Þórshöfn? Týndist hann kannski á hafnarbakkanum eða datt hann í það á Ólafsvökunni og forfallaðist í leiknum? Hvers vegna þessi þögn?