Það eru tveir happdrættismiðar á ísskápnum. Þetta er harlaóvenjulegt, þar sem við kaupum yfirleitt aðeins happdrættismiða frá einu líknarfélagi, Heyrnleysingjafélaginu og þá aðeins einn í hvert sinn. Núna tókst sölumanninum hins vegar að ná okkur Steinunni hvoru í sínu lagi. Þess vegna eru möguleikar okkar á að vinna flatskjá tvöfaldir við næsta útdrátt.
Af hverju kaupum við af heyrnarlausum en ekki öðrum? Tja, það er ekki gott að segja. Á fyrsta lagi er það þægileg vinnuregla að kaupa alltaf frá sama félagi. Þetta eru varla meira en 2-3 miðar á ári, sem eru passleg happdrættismiðakaup. Aðrar greiðslur til líknarfélaga eru í formi félagsgjalda, tilfallandi kaupa á pennum og skrani eða maður hringir í símasafnanir Rauða krossins í tengslum við ljótustu hamfarir. Er t.d. ekki einhver símasöfnun núna vegna Myanmar – eða liggur það niðri meðan þrælmennin í herforingjastjórninni vilja engum hleypa inn?
Önnur skýring á heyrnleysingjadálætinu er sú að Guðmundur Egilsson lærimeistari minn á Minjasafninu var ötull baráttumaður fyrir félagið um árabil og kona hans formaður lengi. Þetta er gott félag og vinnur öflugt starf.
Ætli þriðji þátturinn sé þó ekki einna veigamestur – maður verður alltaf eitthvað svo klaufalegur þegar sölumennirnir koma. Fyrst tekur það mann smástund að uppgötva að maðurinn á tröppunum er heyrnarlaus og eftir vandræðaleg sekúndubrotin kann maður einhvern veginn ekki við að hrista hausinn og loka dyrunum.
Svo væri líka helvíti fínt að vinna flatskjá, hnífasett, málverk eftir Guggu eða raftækjaúttekt í Faco…
# # # # # # # # # # # # #
Framararnir byrjuðu vel í fyrsta leik á Íslandsmótinu. Helvíti vel raunar. Ef það væri ekki búið að berja okkur svona rækilega til á liðnum árum og hrella okkur með fallbaráttu og neðrideildarvist væri þegar búið að taka Þorvald Örlygsson í guðatölu. En við erum reyndari en svo – sjáum hvað setur eftir 4-5 leiki…