Var að ljúka við að horfa á úrslitaleikinn á HM í íshokký. Sjónvarpið fær stóran plús í kladdann fyrir að sýna frá þessu móti.
Ég hef fylgst með íshokkýi með öðru auganu frá vetrarólympíuleikunum 1988, þegar finnska liðið sló í gegn. Á kjölfarið fór ég að leggja mig eftir því að fylgjast með stórmótum – einkum með Finnum en einnig með Tékkum.
Kjartan írnason, höfuðsnillingur og félagi minn í sagnfræðinni á sínum tíma, var dyggur stuðningsmaður tékkneska liðsins og saman horfðum við á nokkur stórmót á Eurosport.
Ég skal fyrstur manna viðurkenna að ég skil illa íshokký. Það er ekkert grín að fylgjast með sporti sem er leikið á svona hröðu tempói. Toppmenn í ísknattleik eru afburðaíþróttamenn, gríðarlega líkamlega sterkir og með mikla snerpu.
Sjónvarpið hefur líka reynt að sýna frá íslensku íshokkýi síðustu misserin. Það er þunnur þrettándi.
Mig grunar að til að íþróttin nái að vaxa hér heima, þá verði stóru, rótgrónu íþróttafélögin að taka greinina upp á sína arma. Þegar Fram, KR og Valur verða farin að berjast við Skautafélag Reykjavíkur, Björninn og Skautafélag Akureyrar um Íslandsmeistaratitilinn, þá fyrst held ég að íshokkýið muni ná máli sem íþróttagrein hér heima.