Öfugt við það sem sumir halda, hef ég enga sérstaka nautn af því að rífast við Guðmund Andra Thorsson á netinu. Þvert á móti hafa slík skoðanaskipti tilhneigingu til að leiðast út í eineltisbrigsl og ásakanir um misskilning og rangfærslur. (Kratar eru frá Mars, kommar frá Venus.)
Hins vegar finnst mér gaman að ræða um sagnfræði og umræðurnar hér að neðan gefa gott tilefni til vangaveltna um íslenska 20. aldar sögu – að hvaða leyti er rétt að tengja aukið stjórnmálalegt sjálfstæði Íslands á liðinni öld við efnahagslegar framfarir. (Og setjum hér til hliðar alla hina flóknu umræðu um kosti og galla hins gildishlaðna orðs „framfarir“.
Spurt var hvort sagnfræðingar gætu ekki verið sammála því að Heimastjórnartíminn (1904-1918) hafi verið framfaratími? Jú, líklega fengjust fáir til að mótmæla þeirri staðhæfingu. Reyndar fer það talsvert eftir mælikvörðum hvaða tímabil tuttugustu aldarinnar megi teljast mesti framfaratímann. Ef horft er til til þátta eins og aukinna lífslíkna, lengingu skólagöngu og minnkandi barnadauða er blómaskeið þjóðarinnar frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og rétt fram yfir 1980.
Lengi vel var miðað við raforkunotkun á heimili, en fljótlega upp úr 1980 hætti sá mælikvarði að ganga upp, þar sem sparneytnari tæki náðu að vinna upp vöxtinn í útbreiðslu heimilistækja. Vöxtur þjóðarframleiðslu er einn mælikvarði – þróun kaupmáttar kemur líka til greina.
Aðdáun fólks á Heimastjórnartímanum í sögu Íslands tengist þó ekki endilega vísitölum sem þessum, heldur frekar stórfelldum tæknibreytingum þessara ára og þá sérstaklega einstökum stórframkvæmdum. Og þar sem margar þessara nýjunga voru kynntar til sögunnar nánast á sama tíma og stjórnskipulag landsins breyttist, liggur beint við að álykta að tengsl hljóti að hafa verið þar á milli. Það er þó ekki alltaf svo augljóst.
Að baki hugmyndarinnar um heimastjórn sem kveikju tækniframfara liggur sú söguskoðun að tæknikerfi aldamótaáranna hafi öll legið frammi, líkt og vörur á hillu í stórmarkaði og beðið þess eins að vaskir stjórnmálamenn tækju þau í sína þágu. Þannig megi skýra hversu seint Íslendingar hafi tekið upp tæknikerfin með dáðleysi og drunga valdstjórnar Dana.
Þessi mynd er alltof einföld. Fyrir það fyrsta er alls ekki í öllum tilvikum hægt að segja að Íslendingar hafi verið seinir til í tæknivæðingunni. Nauðsynlegt er að skoða hvert kerfi fyrir sig.
Tökum sem dæmi vatnsveitukerfi. Fyrstu stóru skrefin í vatnsveitumálum voru tekin um það leyti sem heimastjórnin komst á. Miðað við stærð samfélagsins og stöðu mála í grannlöndunum voru Íslendingar hins vegar frekar snemma á ferðinni. Það hefði komið á óvart ef þessi mál hefðu komist á rekspöl mikið fyrr. Þó vorum við eftirbátar Þórshafnarbúa í Færeyjum svo munar nokkrum árum.
Rafvæðingin á Íslandi hefði hins vegar getað byrjað nokkuð fyrr en raunin varð – þótt mörgum hætti til að ofmeta hversu „sein við vorum til“. Ísland og Færeyjar voru hér á svipuðu róli, þrátt fyrir náttúrulega yfirburði Íslands með öllum sínum vatnsföllum. Eftirtektarvert er hversu lítið gerist í rafmagnsmálunum á tíma heimastjórnarinnar.
Símamálið er hið klassíska dæmi sem oftast er notað til marks um framfarahuginn í kjölfar þess að ráðherravaldið færist frá Höfn til Víkur. En tvennt þurfti til: pólitískan vilja á Íslandi annars vegar, en ekki síður tæknilegar lausnir og erlend stórfyrirtæki til að bjóða fámennum samfélögum slíka þjónustu. Stutt yfirlit yfir vöxt símakerfa á jaðarsvæðum Evrópu um og eftir aldamótin 1900 er að mörgu leyti raunhæfari skýring á því hvernig og hvenær símtæknin barst til landsins en framvinda sjálfstæðismálsins.
Svona mætti lengi telja. Á sumum sviðum komu Íslendingar seint til leiks – á öðrum snemma. Oftar en ekki var tími tæknivæðingarinnar þó á svipuðu róli og ætla mætti miðað við stærð og staðsetningu.
Stærstu tæknibreytingarnar á heimastjórnartímanum voru líkast til á sviði sjávarútvegsins. Þar eru togararnir kunnustu táknmyndirnar, en fleira kom þó til.
Á sjávarútvegssögukúrsinum sem ég tók hjá Jóni Þ. Þór á sínum tíma uppí Háskóla, lagði Jón höfuðáherslu á mikilvægi vélbátavæðingarinnar. Sagnfræðingar hafa kallað hana hina „íslensku iðnbyltingu“. Segja má að samfélagslegu áhrif vélbátanna hafi verið mun meiri en togaranna, enda rekstur þeirra hættuspil og meira lotterí.
Það athyglisverðasta við íslensku vélbátasögunna er hversu snemma hún hefst. Vélbátar til fiskveiða voru nýjasta nýtt í heiminum þegar þeir fóru að skjóta upp kollinum í minnstu bæjum umhverfis landið. Og hverjir skyldu hafa verið frumkvöðlar í vélbátanotkun í heiminum? Jú, Danir.
Það er því freistandi að spyrja sig hvort krafturinn í vélvæðingu smábátaflotans – íslensku iðnbyltingunni – hafi ekki fremur verið VEGNA náinna tengsla Íslands og Danmerkur frekar en ÞRíTT FYRIR þau?