Fór í kvöldgöngu. Ekkert langt svosem – bara meðfram Sæbrautinni, aðeins vestur í bæ og svo upp Laugaveginn á leiðinni heim. Stoppaði fyrir framan verslunina Vínberið og fór að reyna að rifja upp…
Fyrir framan Vínberið er örstuttur stubbur, 10-12 metra langur í mesta lagi, þar sem gler- eða plastkúpull er yfir stéttinni til að veita skjól fyrir rigningu.
Mig rámar í það þegar þetta var sett upp fyrir mörgum, mörgum árum. Þá var í gangi kunnugleg umræða um dauða miðborgarinnar. Kringlan var að draga til sín fólk og margir drógu þá ályktun að veðrið væri vandamálið – að fólk vildi ekki versla utandyra.
Þá varð til hugmynd um að koma upp svona gleri/plasti yfir allri gangstéttinni meðfram götunnni – og gott ef ekki yfir hluta akvegarins líka. Stubburinn fyrir framan Vínberið átti að vera tilraun, en ég get ekki fyrir mitt litla líf rifjað upp hvort þessu var komið fyrir víðar. Man það nokkur?
Eftir á að hyggja var þetta fráleit hugmynd. Hugsið ykkur hversu ljótur Laugavegurinn væri með svona plastrennum yfir öllum gangstéttum! Með snjóbræðslukerfum tókst að komast fyrir hluta vandamálsins sem rennunum var ætlað að leysa – og allir vita að vandinn með íslenska rigningu er jú að hún fellur sjaldnast lóðrétt hvort sem er.
En hver veit – kannski Jakob Frímann dusti rykið af glerhússhugmyndinni. Hann getur þá amk. sparað sér tíu metra stubb við Vínberið…