Ég stend í stappi við Orkuveituna. Ekki sem starfsmaður – heldur sem viðskiptavinur. ígreiningsefnið er þjónustugjöld.
Þannig er mál með vexti að á Mánagötunni eru þrjár íbúðir: kjallari, fyrsta og önnur hæð. Sú hefð hefur skapast í húsinu að framkvæmdakostnaði og kostnaði við kyndingu er skipt í hlutföllunum 40-40-20. Það endurspeglar nokkurn veginn stærð íbúða og hlutföllin eru þægileg. Engum dettur í hug að láta skipta upp heitavatnsmælinum, enda er það mjög órökrétt í svona húsi þar sem íbúðirnar hafa hitann hver af annarri.
Við erum ekki með húsfélag og sérstaka kennitölu fyrir það. Auðvitað gætum við stofnað það, en mér er þó til efs að fólk í tvíbýli eða þríbýli geri það almennt.
Fyrir vikið er heitavatnsreikningurinn gefinn út á eina íbúð í húsinu – okkar. Við höfum svo það hlutverk að rukka nágrannana mánaðarlega, sem er hvimleitt. Auk þess gerir þessi tilhögun okkur það erfiðara að taka upp aðra greiðslumáta, s.s. boðgreiðslur eða netgreiðslur með tilheyrandi afsláttarmöguleikum.
Á spjalli við vinnufélaga, var mér bent á að Orkuveitan byði upp á skiptingu reikninga. Þannig gætum við skilað inn blaði með undirskriftum allra íbúa og fyrirtækið eftirleiðis sent þrjá reikninga – með þessari ágætu skiptingu 40-40-20. Auðvitað gerðum við ráð fyrir að þjónustugjöldin yrðu eitthvað hærri eða að eitthvert stofngjald fylgdi þessari þjónustu. Eðli málsins samkvæmt kostar það Orkuveituna meiri vinnu að útbúa þrjá reikninga en einn.
En okkur brá í brún þegar farið var að kanna kostnaðinn við innheimtuna. Orkuveitan innheimtir nefnilega viðbótargjald upp á 1.800 kr. +vsk. fyrir hverja íbúð – á hverju ári. Samanlagður kostnaður íbúðanna þriggja í húsinu yrði því um 6.000 krónur á ári!
Það er fáránlega mikið.
Ég hélt að orkufyrirtæki væru í sömu stöðu og opinberir aðilar, að þjónustugjöld þeirra eigi að endurspegla raunverulegan kostnað – nema sérstakar lagaheimildir væru fyrir öðru. Ég á mjög bágt með að sjá hvernig Orkuveitan getur fært fyrir því rök að viðbótarkostnaðurinn vegna reikningaskiptingarinanr geti farið nálægt þessari upphæð, einkum þar sem hér er ekki um stofnupphæð að ræða heldur föst tala á hverju ári.
Ég átti ágætt samtal við samstarfskonu vegna þessa, en fékk svo sem ekki mörg svör önnur en þau að svona væri gjaldskráin. Hún gat þó bent á að með þessari skiptingu væri ekki um það að ræða að útbúinn væri einn reikningur og honum svo skipt upp í þrennt – heldur væru eiginlega stofnaðar þrjár veitur inni í tölvukerfi Orkuveitunnar sem aftur deildu einum mæli. Þannig væri þetta í raun ekki þannig að mælaaflesarinn kæmi á Mánagötuna og læsi af einum mæli, skrifaði niður tölu og kostnaðinum væri skipt eftir fyrirframákveðinni formúlu – heldur kæmi mælaaflesarinn á svæðið og læsi í raun þrisvar sinnum af sama mælinum í heimsókninni… Eða eitthvað svoleiðis…
Annað sem starfsmaðurinn gat bent á Orkuveitunni til varnar, var að í raun bæri fyrirtækinu engin skylda til að bjóða upp á þessa þjónustu. Þannig gæti Orkuveitan í krafist þess að einn reikningur væri látinn nægja.
Ég er enn ekki sannfærður. Ætli maður hefði ekki sætt sig við þjónustugjald sem væri svona þriðjungur eða fjórðungur af þessari upphæð. 2.000 kall pr. íbúð á ári er hins vegar ekki ásættanlegt.
Þá er bara tvennt í stöðunni:
i) hverfa aftur til fyrra horfs
eða
ii) senda Umboðsmanni Alþingis og Neytendasamtökunum fyrirspurn
Hvað ráðleggja lesendur?