Bandarísku forsetakosningarnar fóru vel. Kaninn hafði vit á að kjósa yfir sig mann sem var á móti íraksstríðinu frá upphafi – öfugt við t.d. Hillary Clinton sem er stórhættuleg í utanríkismálum. Um mótframbjóðanda Obama þarf ekki að hafa mörg orð þegar kemur að stríðsæsingum.
En…
(það er alltaf – en…)
…sigur Obama felur líka í sér hættu. Það má nefnilega færa fyrir því rök að of miklar vinsældir Bandaríkjaforseta geti reynst skaðleg fyrir öryggi heimsins.
Það má ljóst vera að Obama verður fagnað sem rokkstjörnu í opinberum heimsóknum sínum um heimsbyggðina. Stjórnmálamenn hvaðanæva munu keppast um að fá að stilla sér upp með honum á myndum. Biðlistinn eftir að komast í heimsókn í Hvíta húsið hefur aldrei verið lengri.
Við þessar aðstæður er hætt við að fáir eða engir verði til að stíga á bremsuna, komist Bandaríkjastjórn að þeirri niðurstöðu að rétt sé að hefja loftárásir á eitthvert landið eða efna til stríðs. Líklegt er að alþjóðlegar vinsældir hins nýja forseta séu slíkar að hálf heimsbyggðin myndi elta hann út í hvaða vitleysu sem er næstu misserin.
Þetta eru ekki bara fræðilegar vangaveltur, heldur byggja þær á reynslu. John F. Kennedy naut fádæma vinsælda á alþjóðavettvangi og komst því upp með kolbrjálaða stefnu í utanríkismálum. Á þeim vettvangi var Kennedy í hópi hættulegri Bandaríkjaforseta. Þannig stýrði hann Bandaríkjamönnum beint út í það fúafen sem stríðið í Víetnam var.
Við skulum því gleðjast yfir úrslitum næturinnar – en hafa þó varann á.