Hundurinn

Forvitnilegustu fréttir vikunnar eru þær að Færeyingar séu í­ fullri alvöru að velta fyrir sér möguleikanum á að kaupa raforku frá Íslandi um sæstreng. Þetta er mjög spennandi mál – þótt tæknilegu og kostnaðarlegu hindranirnar verði ærnar.

Nú þarf ekki mikla kunnáttu í­ Ohm-lögmálinu og lí­tilsháttar legu yfir landakorti til að sjá í­ hverju vandamálin felast. Fyrsta spurningin sem vaknar er t.a.m. sú hversu ógnarhá spennan þarf að vera til þess einfaldlega að dæmið gangi upp? Sæstrengur af þessu tagi yrði sömuleiðis svo dýr, að ekki kæmi annað til greina en að hann tæki yfir raforkukerfi eyjanna nálega 100%. Færeyingar yrðu því­ að slökkva á öllum olí­ustöðvunum sí­num – lí­ka þeim nýjustu. Lí­klega gætu þeir þó ekki selt þær frá sér, því­ varaafl verður að vera í­ landinu.

Fyrir 20-25 árum voru miklir loftkastalar byggðir varðandi mögulega orkusölu til Evrópu. Á þeim tí­ma bauð tæknin ekki upp á slí­kar æfingar – auk þess sem það er spölkorni lengra til Bretlands og meginlandsins en Færeyja. Gaman væri að fá samanburð á því­ hver sverleiki þessa strengs yrði sbr. við það sem áformað var fyrir aldarfjórðung.

Fyrir orkusöguáhugamenn er hugmyndin um að leggja hund til Færeyja sömuleiðis heillandi. Íslenska raforkukerfið er byggt upp af vatnsafls- og jarðgufuvirkjunum. Báðar gerðir eru fjárfestingarfrekar og þurfa því­ að geta gengið að kaupendum fyrir mestallri framleiðslugetu sinni strax á fyrsta degi.

Heimili og smáatvinnurekstur eru þeir kúnnar sem borga hæst raforkuverð pr. kí­lóvattstund og þótt notkunin sé sveiflukennd og dreifingarkostnaður talsverður, eru þetta almennt álitnir „bestu kúnnarnir“. En þar sem fólki fjölgar jafnt og þétt en orkukerfi eins og það í­slenska vex í­ stökkum, hefur orðið til „í­slenska módelið“ í­ orkusölunni. Það gengur út á að tryggja stórkaupanda (stóriðju) samhliða hverri nýrri virkjun. Stórkaupandinn fær svo obbann af orkunni fyrir lágt verð – en það verð er þó stöðugt og frá fyrsta degi. Lí­till hluti raforkunnar stendur svo eftir og er seldur til „góðu kúnnanna“ eftir því­ sem þeim fjölgar.

Strengur til Færeyja þýddi hins vegar raforkusölu til samfélags með tilbúið og fúnkerandi raforkukerfi, þar sem ekki þarf að styðja sig við einn stórkaupanda í­ byrjun.

Stjórnendur í­slenskra orkumála hljóta að skoða þessar hugmyndir með jákvæðum augum – ef tæknimennirnir gefa grænt ljós á framkvæmdina. Sömuleiðis hljóta menn að skoða ólí­k viðskiptamódel sem til greina koma. Mætti t.d. hugsa sér að færeyska rí­kið gerðist hreinlega aðili að Landsvirkjun? Persónulega finnst mér að það sé kostur sem vel mætti skoða.