Það eru skynsamleg viðbrögð að fyllast tortryggni þegar menn grípa til hugmyndarinnar um „sérstöðu Íslands“ í pólitískum umræðum. Á langflestum tilfellum er þar um falsrök að ræða. Almennt séð hljóta sömu viðmið að gilda hér á landi sem annars staðar – en ekki hvað?
Evrópusambandsmálið er gott dæmi um þetta. Sumir andstæðingar ESB-aðildar vilja grípa til „íslenskrar sérstöðu“ sem röksemdar gegn aðild. Ég gef ekki mikið fyrir slík rök. Þau rök sem bíta eru almenns eðlis og fara ekki eftir lengdar- og breiddargráðum.
Á sama hátt er stuðningsmönnum ESB-aðildar einstaklega tamt að líta svo á að Ísland sé öðruvísi en önnur Evrópuríki og að rétt sé að aðildarferli okkar verði öðru vísi en allra annarra ríkja.
Staðreynd 1: Allar ríkisstjórnir sem hafa farið hafa í viðræður um aðild að ESB hafa haft til þess skýrt umboð. Á öllum tilvikum hefur verið um að ræða ríkisstjórnir landa þar sem meirihluti (og í sumum tilvikum mjög stór meirihluti) flokka hefur haft aðild að ESB á stefnuskrá og boðið þá stefnu fram í kosningum.
Hér á Íslandi vilja sumir fara öðruvísi að. Þeir vilja að Ísland verði eina ríkið í sögu ESB til að sækja um aðild án þess að hafa þingvilja fyrir aðild. Þegar þessu ákafafólki er bent á þá mögulegu málamiðlun að hægt væri að komast fram hjá þessu með því að ríkisstjórn verði sér út um beint umboð með þjóðaratkvæðagreiðslu – þá þykir það asnalegt og ómögulegt. Fólkið er víst svo vitlaust að það myndi ekki skilja slíkar kosningar. Þess í stað þykir betra að fara sér-íslenska leið og gera hlutina öðruvísi en allar aðrar Evrópuþjóðir.
Staðreynd 2: Öll Evrópuríki sem gengið hafa í ESB, hafa treyst sér til þess að ræða kosti og galla mögulegrar aðildar án þess að senda nokkra embættismenn og pólitíkusa til Brí¼ssel. Það skýrist af því að annars staðar í Evrópu skilur fólk að Evrópusambandið er ríkjabandalag sem starfar fyrir opnum tjöldum. Stjórnkerfi þess er þekkt. Lög þess eru þekkt. Grunnsáttmálar þess, s.s. Rómarsáttmálinn, Lissabonsáttmálinn, Maastricht-samkomulagið o.s.frv., eru öllum aðgengilegir. Stórir doðrantar hafa verið skrifaðir um alla þætti bandalagsins og fjöldi fólks hefur lokið háskólagráðum sem snúast einvörðungu um bandalagið.
En þetta gildir ekki á Íslandi. Hér kemur nefnilega til „íslenska sérstaðan“ sem veldur því að fyrir Íslendingum er Evrópusambandið landið handan fjarskans. Um þetta bandalag getur enginn Íslendingur vitað neitt fyrr en búið er að senda þrjá ráðuneytisstjóra og tvo sendiráðsritara á nokkra fundi með erlendum embættismönnum. Þeir sem treysta sér til að ræða kosti og galla bandalagsins á grundvelli annarra upplýsinga eru hinir verstu menn og niðurgrafnir í skotgrafir.
Hugmyndin um launhelgar Evrópusambandsins, sem enginn getur skilið fyrr en að loknum aðildarumræðum er algjörlega séríslensk. Slíkur málflutningur hefur ekki verið borinn fram í neinu því ríki sem gengið hefur í ESB.
Er nema von þótt maður spyrji við hvað íslenskir Evrópusambandssinnar séu svona hræddir? Hvers vegna trúa þeir því að Íslendingar séu öðruvísi en aðrar Evrópuþjóðir og að önnur lögmál eigi að gilda hér en annars staðar? Það er kjánaleg þjóðhverfa.