Fyrir mörgum árum skrifaði ég BA-ritgerð um sögu Gasstöðvar Reykjavíkur. Titilinn fékk ég frá Megasi: Við Hlemmtorgið gnæfir gasstöðin þeirra svo hátt – gott ef þetta Megasarlag var ekki ein aðalástæðan fyrir að ég féll fyrir efninu í upphafi.
Rölti niður Laugaveginn í dag og lenti á tali við mann sem deilir með mér áhuganum á sögu Gasstöðvarinnar og hann sagðist vera kominn með merkileg gögn í hendur. Megas var þriðji maður í samræðunum og ég gat því ekki stillt mig um að spyrja hann út í lagið góða.
Jú, Megas sagðist muna vel eftir Gasstöðinni gömlu – en svo hefði það líka þótt óskaplega fyndinn djókur á sínum tíma þegar Jón slökkviliðsstjóri og borgaraleg yfirvöld ákváðu að byggja nýjan hverfistein ofaná gamalli gasstöð…
…„brandarinn var reyndar orðinn eldgamall þegar ég notaði hann í lagið“, bætti meistarinn við.
– Mér finnst gamli titillinn minn samt flottur!