Skýrsla Deloitte um viðskipti Frjálsrar miðlunar við Kópavog vekur upp áleitna spurningu: hvort dobbið skyldi nú vera þægilegra – að sjá um umbrotsvinnu sem verktaki fyrir Kópavogsbæ eða semja álitsgerðir endurskoðenda fyrir sama sveitarfélag?
Skýrsla Deloitte mun líklega kosta Gunnar Birgisson embættið – en það verður þó frekar vegna fjölmiðlaumfjöllunarinnar um hana og þess að fólk er búið að fá nóg af stjórnunarstíl Gunnars en þess sem í raun stendur í plagginu.
Hvað fá menn mikið borgað fyrir að semja svona skýrslu? Þetta er rétt rúmlega tíu síðna pappír með stóru letri. Drjúgur hluti plássins fer í að endursegja nokkrar greinar úr sveitarstjórnarlögum og innkaupareglum bæjarins, án þess að reynt sé að setja þær í samband við málið sem skýrslan á að fjalla um. Aðalpúðrið fer svo í upptalningu á greiðslum til fyrirtækisins. Þær tölur eru væntanlega fengnar með einni tölvuskipun í bókhaldskerfi Kópavogsbæjar og verða seint taldar flókin rannsóknarvinna.
Engin tilraun er til að leggja mat á upphæð greiðslnanna. Lesandanum er sjálfum látið eftir að draga sínar ályktanir af því hversu mikið er t.d. rukkað fyrir gerð á power point-glærum.
Gunnar Birgisson er ekki nefndur á nafn í skýrslunni og höfundar hennar gera enga alvöru tilraun til að bera á hann sakir um hyglingu. Þess í stað eru deildastjórar bæjarins bornir þungum sökum – einkum fyrir að skrá á ranga bókhaldslykla.
Nú er ég frekar vitlaus í bókhaldsmálum – en getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig það að færa reikninga á ranga lykla eigi að geta hjálpað til við að leyna umsvifum viðskipta bæjarins við einsök fyrirtæki? Hafi Frjáls miðlun fengið alltof mikið borgað fyrir léttvæg verkefni, þá hlýtur það að vera skandallinn í málinu – ekki sá að eitthvað hafi verið fært undir menningarmálanefnd sem hefði átt að skrifast á umhverfisnefnd…
Ef endurskoðendaskýrslur eru upp til hópa svona slappar, þá gef ég nú ekki mikið fyrir vinnubrögðin í faginu. Þokkalegur blaðamaður myndi gera svo miklu, miklu betur – og rukka öllu minna fyrir.
En ég spái því að Kópavogsbúar verði komnir með nýjan bæjarstjóra innan skamms.