Asíuboltinn (b)

Það er ein umferð eftir í Asíuhluta forkeppni HM í fótbolta og spennan í hámarki. Ástralía, Japan og Suður-Kórea hafa tryggt sér þrjú af fjórum öruggum sætum. Fimm lönd eiga enn möguleika á að bætast í hópinn eða tryggja sér sæti í umspili.

Í A-riðli höfðu Ástralir og Japanir yfirburði. Þriðja sætið gefur keppnisrétt gegn þriðjasætisliðinu úr hinum riðlinum. Sigurlið þeirrar viðureignar mun svo mæta Nýsjálendingum í keppni um sæti í Suður-Afríku 2010.

Bahrain stendur ágætlega að vígi. Á heimaleik gegn Úsbekistan í lokaumferðinni og dugir jafntefli. Sigri Úsbekar komast þeir hins vegar í þriðja sætið. Hvorug þjóðin hefur áður komist í úrslitakeppni HM.

Í hinum riðlinum bítast þrjú lönd um sæti tvö til fjögur á eftir Suður-Kóreu. Norður-Kórea og Sádi Arabía hafa bæði ellefu stig, en fyrrnefnda landið betri markatölu. Íran fylgir fast á eftir með tíu stig. Í lokaumferðinni mætast Sádi Arabía og Norður-Kórea í Riyadh og Suður-Kórea og Íran í Seoul.

Munu Suður-Kóreumenn slaka á úr því að HM-sætið er tryggt eða leggja sig fram gegn Írönum eftir slétta viku? Hvaða áhrif mun það hafa fyrir Suður-Kóreumenn að vita að sigur þeirra gæti tryggt grönnunum úr Norður-Kóreu sæti í úrslitakeppninni? Mun það hvetja þá eða letja?

Dyggir lesendur þessarar síðu geta bókað framhaldsfærslu þegar úrslitin liggja fyrir…