Þetta rafbílaverkefni er spennandi – og gæti verið akkúrat það sem þjóðin þarf á að halda núna. Ekki vegna þess að rafbílavæðing muni skila okkur skrilljónum í kassann í einum grænum, heldur vegna þess að okkur vantar einmitt svona hópefli – átaksverkefni þar sem fólki finnst það vera að taka á málunum, prófa eitthvað nýtt og jákvætt til framtíðar. Spara innflutt eldsneyti og nýta náttúruauðlindir á skynsamlegan hátt.
Það er góðra gjalda vert að stefna að því að koma upp rafhleðslustaurum útum allar trissur. Til lengri tíma litið hlýtur vöxtur rafbílatækninnar þó að byggjast á því hvort fólk geti hlaðið bílinn heima hjá sér meðan það sefur. Til að búa í haginn fyrir það verða skipulagsyfirvöld að koma til sögunnar.
Til þess eru ýmsar leiðir, s.s.:
* að bundið sé í byggingareglugerðir að gengið sé frá rafkerfi allra nýrra bílastæðahúsa þannig að unnt verði að hlaða rafbíla
* að gert verði ráð fyrir slíkum tengingum í eða við bílskúra í nýbyggingum
* að ný hverfi verði skipulögð með þeim hætti að reiknað verði með tilteknum fjölda stæða við rafhleðslustaura
* að leitað verði leiða til að leysa málið í eldri hverfum
Orkufyrirtækin þurfa sömuleiðis að marka sér stefnu í málaflokknum. Einn stærsti höfuðverkurinn hlýtur að vera: hver eigi að borga rafmagnsreikninginn? Hvernig förum við að því að rukka rafbílaeiganda sem tappar á bílinn sinn við hleðslustaur á almannafæri? Væntanlega þarf að hanna einhvers konar sjálfsalakerfi eða orkulykla. Það er þá eins gott að byrja að undirbúa það strax.
– Hvað ætli rafdrifinn miðlungsfjölskyldubíll kosti í dag?