Það er magnað hvað erlendar fréttir sem okkur eru fluttar ganga út frá þeirri forsendu að fólk sé minnislaust. Nýjasta dæmið eru kosningarnar í Íran og deilurnar um framkvæmd þeirra.
Þegar vestrænir fréttamenn skrifa um stjórnmál í 2. og 3. heiminum, er alltaf fyrsta skrefið að finna „harðlínumanninn“. Þetta er ljóti karlinn sem við viljum að tapi. Andstæðingur hans er „umbótasinninn“. Það að vera umbótasinni þarf ekki að merkja annað en að viðkomandi sé aðalóvinur vonda karlsins.
Í Íran er „harðlínumaðurinn“ Ahmadinejad forseti. Gott og vel, ekki kæri ég mig um að fara að verja þann náunga neitt sérstaklega.
Mótframbjóðandinn er því samkvæmt skilgreiningu talinn „umbótasinninn“. Sá heitir Mousavi.
…nema hvað… þetta nafn klingir einhverjum bjöllum hjá þeim sem muna fréttir lengur en þrjá mánuði aftur í tímann…
Frjálsræðishetjan Mousavi var forsætisráðherra Khomeinis (sem hét alltaf erkiklerkur í íslenskum fjölmiðlum) frá 1981-89. Á þeim tíma átti Íran í skelfilega blóðugri styrjöld við Írak, þar sem „við“ studdum vitaskuld innrásarlið Saddams Husseins og dældum í hann vopnum. Ætli það hefði ekki þurft að segja erlendu fréttadeildunum það tvisvar fyrir aldarfjórðungi að Mousavi ætti eftir að verða góði kallinn árið 2009?