Það er enginn hörgull á vísunum í Versalasamningana 1919 um þessar mundir. Versalasamningar er í hugum flestra gleggsta dæmið um það hvernig óbilgirni sigurvegara getur komið í hausinn á þeim og skapað jarðveg haturs, sem síðar leiðir til enn frekari vandamála.
Þessi túlkun er ríkjandi í öllum kennslubókum í sagnfræði og helstu uppflettiritum. Undantekningarlítið er sjónum beint að þeim mistökum sem gerð voru á Versalafundinum og afdrifaríkum afleiðingum þeirra. Oftar en ekki er svo teflt fram andstæðunum: frjálslyndri alþjóðahyggju Wilsons Bandaríkjaforseta en hins vegar þvergirðingshætti og hefnigrini sumra evrópskra leiðtoga, einkum Frakka.
Í öllum kennslubókunum mínum í grunnskóla, menntaskóla og raunar í háskólanum líka, var Woodrow Wilson lofsunginn og talinn einna mestur bandarískra forseta. Fyrir vikið fannst mér skrítið að rekast á skammargreinar friðsamra bandarískra hægrimanna á borð við Ron Paul, sem hefur margoft rakið upphaf vondrar bandarískrar utanríkisstefnu til Wilsons.
Það er reyndar mjög áhugavert fyrir sagnfræðinga að velta því fyrir sér hvernig standi á þessari almennu sátt um túlkunina á Versalasamningunum. Hvers vegna eru samningarnir svo almennt taldir hafa getið af sér seinni heimsstyrjöldina?
Ætli það megi ekki öðru fremur kenna tveimur mönnum um þessa túlkun: Keynes og Hitler.
Sá síðarnefndi, hamraði stöðugt á Versalasamningunum í öllum sínum áróðri – jafnt innávið sem útávið. Versalasamningarnir voru óvinsælir meðal þýsku þjóðarinnar og með því að kenna þeim um sem allra flest, gátu nasistar slegið margar flugur í einu höggi: skellt skuldinni á útlendinga, gyðinga, sósíaldemókrata o.s.frv. Í þeim skilningi er það vissulega rétt að Versalasamningarnir reyndust tæki sem beita mátti til stríðsæsinga – en það þarf þó ekki endilega að fela í sér dóm um innihald þeirra.
John Maynard Keynes skrifaði þegar árið 1919 áhrifamikla bók þar sem Versalasamningarnir voru gagnrýndir harðlega. Bókin vakti mikla athygli, en hún hafði að geyma svartsýna spá um að afarkostir þeir sem Þjóðverjum væru settir væru hættuspil. Með vaxandi frægð Keynes sem hagfræðilegs hugsuðar og uppgangi öfgaafla í Þýskalandi sem aftur leiddi til nýrrar styrjaldar, er ekki að undra þótt margir hafi talið spásögnina fullkomnaða.
Þegar heimsstyrjöldin síðari braust út einungis tuttugu árum eftir að Versalasamningarnir voru staðfestir, má segja að sögulegur dómur þeirra (ef hægt er að nota það glannalega hugtak) hafi verið endanlega undirritaður. Sárafáir sagnfræðingar hafa gert tilraun til að bera blak af þeim. Á því eru þó undantekningar.
Sumir hafa bent á að þótt Versalasamningarnir hafi kannski hvorki verið góðir eða skynsamlegir – þá hafi þeir verið skiljanlegir og rökréttir í ljósi aðstæðna. Augljósustu rökin fyrir þessu eru friðarsamningar þeir sem Þjóðverjar höfðu sjálfir gert Rússum að samþykkja fáeinum mánuðum fyrr. Þeir samningar voru miklu harðari og fólu í sér mun þyngri klyfjar fyrir Rússa en nokkuð það sem sigurvegararnir buðu Þjóðverjum upp á 1919.
Aðrir hafa bent á að deilurnar um stríðsskaðabæturnar hafi verið heitastar fram til 1924, en eftir samþykkt Dawes-áætlunarinnar það ár hafi mjög slaknað á þeirri spennu. Tímabilið 1924-31 var tími batnandi samskipta milli ríkja í Evrópu, en með heimskreppunni þróast mál aftur til verri vegar. Þessar staðreyndir ríma hins vegar illa við hugmyndina um að Versalasamningarnir hafi á einhvern hátt gert nýja styrjöld óumflýjanlega allt frá 1919.
Margaret MacMillan er einn fárra sagnfræðinga sem gengið hafa hvað lengst í að verja Versalasamningana. Það gerði hún í mjög áhugaverðri bók sinni um þá frá árinu 2002.
Auk þess að vera kanadískur doktor í sagnfræði frá Oxford-háskóla, er MacMillan barnabarnabarn Davids Lloyd Georges, forsætisráðherra Breta og lykilmanns í samningunum.
Hún bendir á hvílíkt afrek það hafi þrátt fyrir allt verið að endurskapa stjórnmálakerfi Evrópu og raunar hálfrar heimsbyggðarinnar á fáeinum mánuðum og hvernig friðarsamningarnir hafi leitt til öndvegis ýmis viðhorf og sjónarmið sem teljist sjálfsögð í dag.
Varðandi þátt Versalasamninganna í að síðari heimsstyrjöldin braust út, kemst MacMillan að þeirri niðurstöðu að samningarnir hafi ekki orsakað stríðið en þeim hafi mistekist að afstýra því. Þannig hafi stríðsskaðabæturnar reynst drjúgt áróðurstæki, en í raun hafi höfundar samninganna alls ekki haft það að leiðarljósi að kreista hvern blóðdropa út úr Þjóðverjum, heldur að ganga þannig um hnútana að hægt væri að kynna kjósendum heima fyrir nægilega háa upphæð skaðabóta, án þess þó að til stæði að innheimta nema brot þeirrar upphæðar. Ekki megi gleyma því að þrátt fyrir eyðileggingu stríðsins og hörð skilyrði sigurvegaranna, hafi Þýskaland engu að síður komið út úr fyrri heimsstyrjöldinni sem öflugasta iðnveldi Evrópu.
Mæli með þessari bók fyrir þá sem vilja fá aðeins öðruvísi sýn á þessa mikilvægu tíma í Evrópusögunni.