Versti samanburðurinn…

Björg Magnúsdóttir, blaðamaður á Pressunni, skrifar pistil um pólitíska ábyrgð – eða öllu heldur skort á pólitískri ábyrgð í samfélaginu. Allt gott um það að segja.

Björg grípur hins vegar til samanburðar við fótboltaheiminn – og sá samanburður gæti varla verið óheppilegri.

Samkvæmt pistlinum ætti pólitíkin að vera meira eins og fótboltinn. Þar axli þjálfarar glaðir ábyrgðina og telji ekkert sjálfsagðara en að vera reknir þegar liðið tapar mörgum leikjum. Engum þeirra detti í hug að svekkja sig á slíkum brottrekstri eða grípa til þess að kenna öðrum en sjálfum sér (s.s. stjórn eða leikmönnum) um ófarirnar.

Þetta er besta öfugmælavísa sem ég hef heyrt lengi. Eftir að hafa fylgst með fótbolta í rúman aldarfjórðung dettur mér varla í hug nokkurt dæmi um þjálfara sem láta fallast á sverð sitt. Þvert á móti streitast þeir undantekningarlaust á móti þegar þeim er sagt upp störfum, telja sig grátt leikna og hafða fyrir rangri sök. Það er líka bara mannlegt.

Það er samt gaman á þessum kaldhæðnu tímum, að til skuli vera fólk sem trúir í raun og veru fréttatilkynningum þjálfara og stjórna knatspyrnufélaga um „sameiginlega niðurstöðu beggja aðila um starfslok…“