Hayes vs. Bush

Morris, höfundur bókanna um Lukku Láka, dó árið 2001. Eftir hann lágu þá sjötíu bækur um Lukku Láka – auk hliðarverkefna, s.s. allnokkrar bækur um ævintýri heimska hundsins Rattata.

Eftir fráfall meistarans hafa þrjár bækur komið út til viðbótar, þar sem félagarnir Achdé og Gerra semja og teikna. Þessar nýju bækur eru fínar og gefa verkum forverans ekkert eftir. Reyndar eru þær betri en sumar af nýjustu Morris-bókunum, sem voru farnar að verða endurtekningasamar.

Lukku Láki er bestur þegar plottið hefur sagnfræðilegar vísanir, enda er til mikill litteratúr um sögulegar vísanir í bókunum. Nýjasta Lukku Láka-bókin, Maðurinn frá Washington (L´Homme de Washington) er sérstaklega velheppnuð í þessu tilliti.

Í bókinni gerist Lukku Láki fylgdarmaður Rutherfords B. Hayes í baráttunni að verða frambjóðandi Repúblikana í forsetakosningunum 1876. Andstæðingur Hayes í kosningabaráttunni er hinn ófyrirleitni Perry Camby frá Texas – sem er illa dulbúin skopstæling af George W. Bush. Aðstoðarmaður Cambys minnir á Dick Cheyney að útliti og innræti, auk þess sem einn af óþokkum þeirra félaga heiti Sam Palin, með augljósri vísun í Söru Palin.

Lukku Láki og Hayes vinna svo frægan sigur á fólinu frá Texas og Hayes kemst í Hvíta húsið eins og fínn maður.

…er ekki löngu tímabært að bókaútgefendur vakni og fari að gefa Lukku Láka út að nýju á íslensku. Þetta er augljós metsölubók!