Binni eða Palli?

Flestar bækurnar sem við Steinunn lesum fyrir Ólínu á kvöldin eru hálfgerðar myndabækur (Smjattpattar, Herramenn, Doddi, Kuggur o.s.frv.) Þarna eru líka einhverjar ljóðabækur (Í búðinni hans Mústafa er í sérstöku uppáhaldi), en þær eru líka mikið myndskreyttar.

Upp á síðkastið höfum við verið að fikra okkur aðeins yfir í bækur sem eru fyrst og fremst texti. Fíasól reið á vaðið og síðan Jón Oddur & Jón Bjarni. Nýjasta viðbótin er sagan um Pál Vilhjálmsson. Ansi mikið af bröndurum Palla fara þó ofangarðs og neðan hjá fjögurra ára barninu. Aðalástæðan fyrir að hún vill að við höldum áfram með söguna af Páli er líklega sú að við blöðruðum því að strákurinn í bókinni væri líka aðalpersónan á Algjörum sveppi e. Gísla Rúnar – sem er uppáhalds barnaplatan um þessar mundir.

Páll Vilhjálmsson er einhver vinsælasta persóna sem komið hefur fram í íslensku sjónvarpi. Ein af klisjunum í dagskrárgerð hjá RÚV er að fara í leikmunageymsluna og grafa upp Palla… já eða Glám og Skrám.

Páll Vilhjálmsson var hins vegar fyrir mína tíð í Stundinni okkar. Bókin var aldrei til á mínu heimili og sannast sagna hef ég aldrei náð að tengja sérstaklega við hann. Þegar ég var pjakkur, var Binni aðalfígúran.

Binni í Brandarabankanum var tuskudúkka og bankastjóri Brandarabankans. Hann sat í gjaldkerastúku, bak við gler og reytti af sér fimmaurabrandara við Bryndísi Schram.

Í minningunni var Binni frábær. Ég vil trúa því að það mat mitt hafi staðist tímans tönn. Hvers vegna eru engir Binna-sketsar á Jútúb?