Ólafur Teitur Guðnason hefur gefið út á bók fjölmiðlapistla sína úr Viðskiptablaðinu. Það er gott framtak og ég held að ég eigi öll bindin (eða öllu heldur allar kiljurnar). Eina þeirra pantaði ég mér meira að segja frá Vef-Þjóðviljanum, sem notar hvert tækifæri til að auglýsa bækur þær sem hann hefur til sölu.
Til dæmis í nýjustu færslunni…
Reyndar er það talsverð gestaþraut að átta sig á samhenginu í þessari færslu. Hún hefst á því að sagt er frá því að fyrir mánuði hafi áfrýjun Josephs C. Wilsons og konu hans Valerie Plame í málarekstri gegn Dick Cheney verið vísað frá dómi. Því næst er birtur fjölmiðlapistill Ólafs Teits úr fyrstu bókinni, sem einmitt fjallar um Joseph C. Wilson og fullyrðingar hans varðandi meint áform Saddams Hussein að kaupa efni til kjarnorkuvopnagerðar í Níger. Loks hristir nafnleysingi Vefþjóðviljans höfuðið yfir því hvað fjölmiðlar séu nú glataðir og gjarnir á að eltast við einhverja vitleysu, en koma svo aldrei neinum leiðréttingum að.
Sá sem les færsluna hratt yfir, fær sjálfkrafa á tilfinninguna að niðurstaða dómsmálsins í síðasta mánuði hljóti að tengjast efni þessa fimm ára gamla pistils Ólafs Teits og að í því felist þá einhver sönnun þess að hann hafi hitt naglann sérstaklega vel á höfuðið. Það er ekki fyrr en athugull lesandi leggur sig eftir því að grafa upp upplýsingar um þetta dómsmál sem verið var að vísa frá dómi, að í ljós kemur að tengingin er engin.
Pistill Ólafs Teits snerist um Wilson og ásakanir hans varðandi Írak og Níger. Dómsmálið á dögunum snýst um hvort háttsettir embættismenn hafi skapað sér refsi- eða bótaskyldu í tengslum við að upplýsingum um eiginkonu Wilsons hafi verið lekið til fjölmiðla, að því er virðist í hefndarskyni. – Það að dómurinn hafi fallið á þennan veg en ekki öfugt hefur því engin áhrif á það hvort ályktanir Ólafs Teits voru réttar fyrir hálfum áratug.
En hvers vegna er þá Vefþjóðviljinn að byrja færslu dagsins á þennan hátt? Hvers vegna notar hann niðurstöðu í ótengdu máli sem opnun á að rifja upp gamla grein, sem er fjarri því að vera sú besta frá Ólafi Teiti – raunar talsvert undir meðallagi, því þar vantar fyndnina sem fjölmiðlarýnirinn getur brugðið fyrir sig á góðum degi?
Er það kannski viljandi gert í þeirri vitneskju að fæstir lesendur munu nenna að grafast fyrir um málið? Þeir munu einfaldlega hrapa að þeirri ályktun að eitthvað það hafi gerst í málarekstri hjónanna sem styðji ávirðingar Ólafs Teits og geri hann þannig að framsýnum spámanni?
Bækur Ólafs Teits bera titilinn „Fjölmiðlar – getur þú treyst þeim?“ Spurning hvaða einkunn Ólafur Teitur hefði sjálfur gefið svona vinnubrögðum?