Var að róta í geisladiskastandinum í dag og rakst á disk sem ég hafði ekki spilað í óratíma. Skellti honum í spilarann og er búinn að láta rúlla tvo hringi.
Þetta var Skuðið í tussunni, hljómleikadiskur og eina afurð hinnar merku sveitar Tony Blair.
Alveg var ég búinn að gleyma því hvað Tony Blair var drulluflott pönkband. Allt varðandi tónlistina og flutning hennar hljómaði eins sveitin hefði stokkið til í tíma frá árinu 1977. Stutt, hrá pönklög. Ekkert kjaftæði.
Og sum lögin eru bara lygilega grípandi. Cherie Blair, Alltaf hlýtt á Hlemmi, Popptívíkynslóðin – og gleðipönkslagarinn Meira pönk – myndu öll teljast nútímaklassík ef Tony Blair hefði bara álpast til að vera uppi aldarfjórðungi fyrr og ratað inní Rokk í Reykjavík.