Það er gott rökræðubragð að geta sakað andstæðinginn um að vera enn fastur í Kalda stríðinu. Sú ásökun er jöfnum höndum notuð af vinstri- og hægrimönnum.
Ætli það sé ekki nokkuð almennur málskilningur að Kalda stríðið hafi skollið á fljótlega eftir seinni heimsstyrjöldina og staðið til um 1990 þegar Sovétríkin hrundu. Það er þó nokkur einföldun.
Kalda stríðið var ekki samfelldur spennutími og inn á milli náði það að þiðna býsna vel. Þannig var mestallur áttundi áratugurinn tími furðu góðra samskipta risaveldanna tveggja. Þessi slaki í samskiptunum fékk heitið détente víða um lönd, nema þá helst hér á Íslandi þar sem málfarsráðunautar útvarps skáru upp herör gegn orðinu eins og hverri annarri slettu.
Í ljósi þeirra eftirmæla sem Bandaríkjaforsetarnir Nixon og Carter hafa fengið í sögunni – Nixon sem fól en Carter sem friðardúfa – þá er kyndugt til þess að hugsa að sá fyrrnefndi átti einna stærstan þátt í að bæta samskiptin en Carter-stjórnin hleypti svo af stað nýju vígbúnaðarkapphlaupi og tók upp harðari stefnu.
Reyndar skýrist stefna Nixon-stjórnarinnar að miklu leyti af því að Víetnamstríðið var orðið svo kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð að vonlaust var að standa í miklu kapphlaupi við austurblokkina á sama tíma.
Hvers vegna er ég að rifja þetta upp núna? Jú, ég var að blaða í gömlum blöðum af Tímanum og rakst á frétt frá vorinu 1973, þar sem í framhjáhlaupi er hæðst að mönnum „sem enn lifa í kalda stríðinu“. – Það þótti sem sagt heldur ekki gott fyrir rúmlega 35 árum síðan…